139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

555. mál
[19:52]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Róberti Marshall fyrir þetta nefndarálit um mjög skiljanlegt mál. Ég held að það sé eðlilegt að ríkisvaldið komi til móts við þá eðlilegu aðhaldskröfu sem er líka gerð til kirkjunnar varðandi það að hún reyni að hagræða hjá sér eins og aðrar mikilvægar stofnanir í samfélaginu. Þetta er auðvitað gert með því markmiði að kirkjan geti sinnt starfi sínu innan þess ramma sem henni er gert hverju sinni. Það skiptir auðvitað máli að við hlúum að kirkjunni og reynum að styðja við hana. Eins og ég skil þetta er þetta tímabundið til 2015 og ég bið hv. þingmann að staðfesta að svo sé.

Ég vek hins vegar athygli á öðru máli sem tengist eðlilega starfi kirkjunnar. Fyrst ég er með hjá mér formann allsherjarnefndar þingsins, sem meðal annars fer með kirkjumálefni, get ég ekki hjá líða að fá álit hans á ákvörðun mannréttindaráðs borgarinnar sem setti fram tillögur sínar um samskipti skóla og trúfélaga í borginni. Þar er meðal annars kirkjum bannað að auglýsa starf sitt við hlið skáta, íþróttafélaga og annarra sem bjóða börnum félagsstarf. Mér þætti gott að fá álit hv. formanns allsherjarnefndar á þessu máli því að þetta snertir eðlilega starfsemi kirkjunnar. Ég vona að við séum sammála um að við viljum veg hennar sem mestan.