139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

555. mál
[20:53]
Horfa

Baldur Þórhallsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir beinir tveimur spurningum til mín sem mig langar að svara í tveimur liðum. Fyrst hvort ég sé ekki sammála því að samstarf kirkju og skóla hafi verið gott og farsælt?

Ég held því miður að það hafi hvorki verið gott né farsælt einfaldlega vegna þess að það hefur í sumum skólum, alls ekki öllum, það verður að taka tillit til þess, verið nokkuð laust í reipunum. Það hefur verið undir hverjum skólastjóra komið hvernig þessu samstarfi hefur verið háttað. Það er ekki gott. Það er miklu betra að hafa skýrar reglur um það hvernig starfinu á að vera háttað. Ég tel það til dæmis ekki gott og farsælt í þeim skólum þar sem það hefur verið stundað — ég ítreka að það á alls ekki við um alla skóla — þegar skólastarf í grunnskólum landsins er hafið í kirkju. Eða þegar skólastarfi í grunnskólum landsins er slitið í kirkju. Eða þegar börn fá frí í skólunum, jafnvel einn eða tvo daga, til að fara í fermingarfræðslu og þau börn sem ætla sér ekki að fermast á vegum þjóðkirkjunnar eru einfaldlega send heim. Þau hafa verið send heim í skammarkrókinn og ekki einu sinni fengið lögboðna fræðslu á vegum sveitarstjórna, sem sveitarstjórnir eru skikkaðar til að veita þeim. Þetta er að misnota aðstöðuna. Og því miður hafa sumir skólastjórar brugðist hvað þetta varðar, aðrir ekki.

Varðandi það að menning okkar byggist á kristnum gildum og kærleika — að sjálfsögðu gerir hún það. En við megum hins vegar ekki falla í þá gryfju að líta á það að okkar menning og okkar kristni og okkar kærleikur sé eitthvað æðri eða betri en önnur trúarbrögð eða aðrir menningarheimar. Þannig megum við ekki tala og eigum ekki að tala því að það skapar fordóma.