139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

555. mál
[21:12]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Allt rétt og klárt hjá hv. þingmanni. Ég vil spyrja hv. þingmann, af því ég var spurð að því í hliðarsal hvað við værum eiginlega að skipta okkur af því sem borgin er að gera, hvort hann telji rétt að við eigum að taka upp þá umræðu á þingi hvert stefni í skólum landsins ef menn ætla, ekki síst í stærsta sveitarfélaginu, Reykjavíkurborg, að loka algjörlega fyrir samskiptin á milli kirkjunnar og skólanna. Ég tel einmitt, ekki síst í ljósi fyrri starfa minna sem menntamálaráðherra, að við séum að vega að því sem við vorum að reyna að byggja upp í nýjum lögum, þ.e. að auka sjálfstæði fagfólksins innan skólanna. Það var nákvæmlega það sem við gerðum með breytingunum, þ.e. við treystum þeim sem stjórna skólunum, kennurum, að vinna þessi mál í nánu samstarfi við foreldra og þá aðila sem í hlut eiga, í þessu tilviki kirkjunnar.

Ég vil því ítreka spurninguna: Telur hv. þingmaður ekki eðlilegt að við þingmenn sem erum alla jafna að ræða m.a. um stöðu og starfshætti þjóðkirkjunnar látum þessi mál okkur líka varða? Það hefði auðvitað verið fróðlegt að hafa hæstv. innanríkisráðherra til þess að fá að heyra skoðun hans á þessari þróun innan borgarinnar.