139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

nálgunarbann og brottvísun af heimili.

706. mál
[21:34]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er einfaldlega staðreynd sem samfélagið verður að horfast í augu við að á hverju ári látast af slysförum fjöldi einstaklinga undir áhrifum vímuefna. Dánarorsök þeirra er ekki skráð sem vímuefnin sjálf, þetta er fólk sem ýmist hefur farið upp í bifreiðir undir áhrifum áfengis eða bara lagst til sunds eða farið út í mjög kalt veður. Við þekkjum sorglegar sögur þess efnis. Þetta er auðvitað hluti af heildarsamhengi samfélags sem hefur tamið sér ákveðnar umgengnisvenjur við vímuefni. Það sem ég bendi á er að þeir hörmulegu glæpir sem framdir eru innan friðhelgi heimilis fólks eru oftar en ekki tengdir þessari taumlausu umgengni við vímuefni sem því miður viðgengst hér á landi. Á því þurfum við að taka á öðrum vettvangi og það þarf að gera á mörgum ólíkum sviðum, bæði forvörnum og í meðferðarúrræðum.

Ég vil líka gera athugasemd við orð hv. þingmanns um stuðning við frumvarp um tóbaksvarnir sem felur í sér mjög afdrifaríkar breytingar á því lagaumhverfi. Við það mál er stuðningur, þó að ég styðji það ekki eins og það er sett fram, innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Einn ef ekki fleiri af þingmönnum flokksins eru flutningsmenn þess máls eða voru það, ég veit ekki hvernig það liggur núna, og það er greinilegt að þau sjónarmið sem þar eru á ferðinni áttu sér viðhlæjendur innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins, svo því sé vandlega til haga haldið.