139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

nálgunarbann og brottvísun af heimili.

706. mál
[21:40]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Róberti Marshall að auðvitað er þörf á því að ræða um þann margháttaða vanda, bæði fyrir einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið í heild, sem áfengis- og vímuefnanotkun veldur. Það er fullkomlega lögmætt og eðlilegt að ræða það og í sjálfu sér eðlilegt að það sé nefnt í samhengi við þetta tiltekna frumvarp. Fyrir liggur að í mjög mörgum tilfellum, ég hef nú ekki skoðað tölfræðina, kannski í yfirgnæfandi meiri hluti tilvika heimilisofbeldis eða ofbeldis í nánum samböndum koma vímuefni og áfengi við sögu með einhverjum hætti. Það er ótvírætt og ágætt að nefna það.

Athugasemd mín laut að því, eins og fram kom áðan, að þetta frumvarp um áfengisauglýsingar sem felur í sér að mínu mati mjög sérkennilegar og smásmugulegar reglur að mörgu leyti, finnst mér ekki hafa mikla tengingu við málið sem við ræðum hér.