139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

nálgunarbann og brottvísun af heimili.

706. mál
[22:02]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns segja að ég tel ákaflega óheppilegt og rangt að blanda inn í umræðu um kynbundið ofbeldi brennivíni, svartamarkaðsbraski og vændi því að enda þótt ofbeldi sé fylgifiskur þess sem ég hef hér upptalið er kynbundið ofbeldi og heimilisofbeldi alls ekki takmarkað við áfengis- eða vímuefnaneyslu, að ég tali nú ekki um svartamarkaðsbrask og reyndar heldur ekki vændi. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það.

Það er mér mikið fagnaðarefni og ég vona að hér í þinginu séum við öll komin svo langt á því herrans ári 2011 að við séum að lögleiða heimild til að vísa ofbeldismanni af heimili sínu og banna honum að koma þangað um tiltekið skeið og að það skuli gert í nýjum lögum um nálgunarbann sem tryggir jafnframt öruggari vernd manna gegn ofsóknum.

Eins og hér hefur verið rakið er umbúnaðurinn um þessa brottvísun af heimili, að mati þeirra sem til þekkja, góður hvað varðar réttaröryggi þess sem af heimilinu er vísað og er það sjálfsagt og rétt. Það er lögreglustjóri sem tekur ákvörðunina innan sólarhrings frá því að beiðnin er borin fram, sem er mjög mikilvægt, en honum ber jafnframt að bera hana undir dóm innan þriggja daga.

Herra forseti. Þetta frumvarp byggir á ákvæði í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna frá því í maí 2009 þar sem eru tiltekin markmið og aðgerðir í því skyni að útrýma kynbundnu ofbeldi. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundi Jónassyni, fyrir að hafa mjög skjótt eftir að hann tók við því embætti skipað nefnd til að undirbúa þá lagasetningu sem ég vona svo sannarlega að við náum saman um að ljúka og leiða í lög áður en þing fer heim.

Ég vil rifja það upp, herra forseti, að á árinu 1982 þegar Kvennaathvarfið var stofnað í Reykjavík var það mikil réttarbót fyrir þolendur heimilisofbeldis sem auðvitað hafði tíðkast hér á landi um í aldanna rás eins og annars staðar. En á þeim tímum, frá því um 1975 og á árunum þar á eftir, var mikil vakning í því sem ýmist er kallað femínismi eða kvenréttindamál og eitt af því mikilvægasta í þeirri bylgju var að gera opinbert hið dulda ofbeldi gegn konum inni á heimilum og annars staðar, bæði hvað varðar nauðganir og heimilisofbeldi, í því skyni að berjast gegn því og útrýma því. Kvennaathvarfið hér á landi er með fyrstu kvennaathvörfum í Norður-Evrópu. Ég er ekki viss um að menn geri sér almennt grein fyrir því. Mig minnir að fyrsta kvennaathvarfið hafi verið stofnað í Chiswick á Englandi 1978 eða 1979, en hér á landi fetuðum við fljótt í fótspor Norðmanna og opnuðum athvarf 7. desember 1982. Það var gríðarlega mikil réttarbót og Kvennaathvarfið hefur á þeim tíma sem liðinn er verið skjól og heimili hundruða kvenna og barna. Markmið samtaka um kvennaathvarf er að útrýma heimilisofbeldi og kynbundnu ofbeldi og leggja kvennaathvarfið niður. Við erum ekki komin svo langt en það frumvarp sem liggur fyrir er liður í því.

Þetta er fyrst og fremst ætlað til að styrkja stöðu brotaþola, þ.e. þeirra sem brotið er gegn með heimilisofbeldi, og vernda líf og heilsu annarra heimilismanna. Það er gríðarlega mikill munur á því að þurfa að flýja heimili sitt, jafnvel með börn, og dvelja kannski langt frá heimilinu, í öðrum landshluta, fara suður til Reykjavíkur eins og sagt er með börnin og dveljast þar vikum eða mánuðum saman fjarri heimili sínu, og aftur því að fá að búa á eigin heimili, börnin fari í sína skóla og séu örugg í umhverfi sínu. Á þessu er gríðarlega mikill munur.

Ég tel ekki einsýnt að Kvennaathvarfið muni leggjast af eða því verði lokað, enda þótt þessi kostur komi til, sem ég tel mikilvægan, því að það er ekki víst að allir mundu velja akkúrat þessa leið. En það er mikilvægt að hún sé opin og hægt sé að grípa til hennar.

Ég hlýt, herra forseti, eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson gerði á undan mér, að nefna í þessu sambandi nafn Kolbrúnar Halldórsdóttur, fyrrverandi þingmanns og fyrrverandi hæstv. ráðherra, sem bar þetta mál fyrst inn í þingið ásamt reyndar fjöldamörgum öðrum mannréttindamálum sem hún var frumkvöðull í að bera inn í þingið. Nokkur þeirra voru nefnd hér fyrr í kvöld þannig að ég ætla ekki að endurtaka þá upptalningu.

Það er mikilvægt að þetta verði í lög leitt. Ég á sæti í hv. allsherjarnefnd og þakka fyrir gott samstarf um málið þar. Ég tel að þetta sé eitt af mikilvægustu málum þessa þings.