139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

nálgunarbann og brottvísun af heimili.

706. mál
[22:09]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að koma örlítið inn í þessa umræðu og geta þess rétt eins og aðrir hv. þingmenn að málið á sér allnokkra forsögu. Þetta frumvarp er reyndar tvíþætt, snýr annars vegar að nálgunarbanni sem fyrst kom inn í íslenska löggjöf fyrir 11 árum og var nokkuð breytt fyrir þremur árum. Þau atriði þessa frumvarps sem lúta að nálgunarbanni eru í meginatriðum eins og verið hefur og ekki ástæða til að fjalla mikið um þau. Það sem heyrir hins vegar til nýmæla í þessu máli eru ákvæðin sem varða brottvísun af heimili og eiga sér rætur, eins og menn þekkja og fram hefur komið við umræðuna, til lagabreytinga sem átti sér stað í Austurríki 1997 og hafa ákvæði af því tagi á undanförnum árum verið tekin upp í norræna löggjöf. Eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu hefur verið litið til Noregs og Danmerkur sérstaklega þegar þessi ákvæði hafa verið mótuð hér.

Eins og aðrir hv. þingmenn hafa getið um voru frumvörp í þessa veru nokkuð til umræðu fyrir nokkrum árum, þingmannafrumvörp frá Kolbrúnu Halldórsdóttur og fleirum, en hlutu ekki brautargengi. Þau urðu hins vegar til þess að málin voru tekin til umræðu og oft og tíðum ítarlegrar umræðu á vettvangi allsherjarnefndar og tók ég þátt í því. Sama gerðist þegar frumvarp til laga um nálgunarbann kom inn í þingið 2008, þá voru breytingartillögur sem fólu í sér þessi atriði tekin til umfjöllunar í allsherjarnefnd. Eins og gerð er grein fyrir í gögnum málsins varð ekki niðurstaða nefndarinnar eða meiri hluta hennar á þeim tíma að taka ákvæðin upp en dómsmálaráðuneytinu þáverandi var falið að vinna að frekari tillögugerð og rannsóknum í þessu sambandi. Frumvarpið sem hæstv. innanríkisráðherra hefur flutt um þetta mál byggir á þeim grunni.

Eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson gat um í ræðu sinni áðan er um að ræða ákveðna jafnvægislist sem þarf að fara í þessum efnum. Allir eru sammála um þau markmið frumvarpsins að bæta stöðu þeirra sem verða fyrir ofbeldi á heimili eða í nánum samböndum og enginn vafi er á því að ákvæðin sem hér er að finna geta átt þátt í því að auka og bæta stöðu þeirra til mikilla muna. Það er hinn jákvæði þáttur sem hefur rekið þetta mál áfram. Á sama hátt hafa komið til ákveðin varfærnissjónarmið. Þau endurspeglast í þeim málsmeðferðarreglum sem frumvarpið hefur að geyma, þ.e. gert er ráð fyrir því að sá sem brottvísun af heimili beinist gegn eigi rétt á að bera undir dómstóla ákvörðun lögreglu í þeim efnum, auk þess sem um er að ræða nokkuð skýrar reglur um það hvernig beri að standa að ákvörðunum af þessu tagi. Þetta er mjög mikilvægt vegna þess að mjög afdrifaríkar og íþyngjandi ráðstafanir getur verið um að ræða. Það á því ekki að vera nægilegt að sakir séu bornar á mann heldur verður að vera rík ástæða til þess að ætla að þær sakir séu réttar. Þarna eru ákveðnar reglur sem eiga að tryggja að þessu úrræði verði ekki beitt að tilefnislausu og að þeir sem sætta sig ekki við niðurstöðu lögreglu í þeim efnum eigi þess kost að fá slíkar ákvarðanir endurskoðaðar.

Ljóst er að nú þegar eru fyrir hendi ákveðin úrræði hjá lögreglu sem getur gripið inn í og handtekið menn og jafnvel fengið menn úrskurðaða í gæsluvarðhald í alvarlegustu tilvikunum. Þessi tilvik koma hins vegar til þegar aðstæður eru ekki með þeim hætti að forsendur séu til slíkra aðgerða. Undir öllum kringumstæðum virðist mikilvægt að úrræði af þessu tagi sé til staðar í löggjöfinni og vonandi kemur það til með að ná því markmiði sem að er stefnt, að bæta stöðu heimilisfólks, bæði maka og barna, við aðstæður sem þessar.

Um þetta mál hefur verið góð sátt í allsherjarnefnd eins og aðrir hv. þingmenn sem hér hafa talað hafa getið um og málið verið unnið vel af hálfu allsherjarnefndar. Niðurstaðan sem liggur fyrir á að vera þannig úr garði gerð að úrræðið sem lagt er upp með nái tilgangi sínum en jafnframt sé tryggt að því sé beitt af varfærni og með meðalhóf að leiðarljósi þannig að réttaröryggi eigi líka að vera tryggt eins og ávallt er nauðsynlegt þegar reglur af þessu tagi eru settar.