139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

almenn hegningarlög.

785. mál
[22:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér nefndarálit um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, með síðari breytingum. Það fjallar um það að herða refsingar gegn mansali og einnig að mansalsbrot tæmi ekki sök gagnvart öðrum mjög alvarlegum frelsissviptingum.

Mansal er svartur blettur á nútímaþjóðfélagi, mjög dökkur blettur. Þetta er í ætt við þrælahald á fyrri tíð og jafnvel verra, þrælar nutu oft ákveðinna réttinda en þeir sem lenda í mansali ekki vegna þess að það er engin löggjöf um slíkt. Það að upplýsa mansalsmál er mjög erfitt, sérstaklega á frumstigum mansalsins þegar fórnarlambið heldur að það sé að fara í eitthvað annað en þrældóm og vinnur jafnvel með þeim stunda mansalið og jafnvel óttast lögreglu og slíkt, vinnur sem sagt algjörlega með glæpamönnunum vegna þess að það telur að það sé fara í módelstörf eða ljósmyndun eða eitthvað algjörlega fáránlegt og er sem sagt lokkað af stað. Karlmenn eru lokkaðir með loforðum um hálaunaða vinnu o.s.frv. Börn eru lokkuð frá foreldrunum með loforðum um menntun í nýju landi og annað slíkt.

Þetta er mjög slæmur glæpur og með þeim verstu sem til eru. Ég hef kynnst þessu dálítið í gegnum starf mitt hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu sem hefur verið að berjast gegn mansali sem var mjög útbreitt t.d. í gegnum Albaníu. Þar heimsótti ég heimili fyrir stúlkur sem höfðu snúið til baka og kynnti mér þær ráðstafanir sem þar eru gerðar og þær eru nokkuð skynsamlegar.

Þegar kemur að því að huga að hækkun refsinga veit ég ekki hve mikinn fælingarmátt það hefur eða til hvers það er gert. Ég tel hins vegar að refsing fyrir mansal eigi að vera af svipaðri stærðargráðu og refsing fyrir morð af því að þetta er ekkert voðalega fjarlægt hvort öðru. Ég get því alveg fallist á þessa refsihækkun en ég vara menn við því að búast við stórfenglegum árangri af refsihækkuninni einni sér.

Hins vegar vil ég leggja áherslu á að menn reyni með öllum ráðum að berjast gegn mansali hvar sem er í heiminum. Vegna legu landsins er kannski ekki mikil hætta á mansali hér á landi en auðvitað getum við ekki útilokað það og alls ekki vegna þess að mansalið getur verið í svo mörgum formum. Það sem gerist þegar fórnarlambið er komið á þann stað sem það er flutt til er tekinn af því passinn og það beitt ofbeldi á alls konar hátt og neytt til að starfa við ýmislegt sem ekki er sérstaklega geðfellt að segja frá. Fórnarlambið er gjörsamlega undir valdi þrælahaldaranna, sem ég kalla þá, og á mjög erfitt með að verja sig, sérstaklega vegna þess að í mörgum löndum og jafnvel hér á landi er fórnarlambið talið vera að fremja refsiverðan glæp. Fórnarlambið er því í tvöfaldri stöðu; að þurfa að óttast glæpamanninn og þurfa að óttast ríkisvaldið. Ég vil endilega að menn breyti þeirri hugsun eins og mögulegt er. Þetta er mjög erfitt mál viðureignar og erfitt að meta hve mansal er mikið en, frú forseti, það er talið að 100 þúsund manns séu seldir mansali á ári hverju, konur kannski aðallega en líka karlmenn í nauðungarvinnu, börn í alls konar vinnu, og þetta er eins og ég sagði í upphafi svartur blettur á mannkyninu og nútímasamfélagi.