139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

almenn hegningarlög.

785. mál
[22:26]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frumvarp, [Kliður í þingsal.] (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞBack): Einn fund í salnum)

ef hv. þingmenn gætu haft hljóð og hlýtt á þessa merku ræðu, en ég ætlaði svo sem ekki að hafa mörg orð um þetta mál. Ég vil þó segja að ég stend að því nefndaráliti sem hér var mælt fyrir, en í frumvarpinu er lagt til að refsing fyrir þau brot sem hér eru til meðferðar verði þyngd og hækkuð úr 8 árum í 12. Eins og hér hefur komið fram og kemur fram í athugasemdum við lagafrumvarpið er það samið af refsiréttarnefnd.

Meginbreytingin hér er annars vegar sú að refsing fyrir mansal verði hækkuð úr 8 ára fangelsi í 12 ára fangelsi og hins vegar að mansalsbrot tæmi ekki sök gagnvart mjög alvarlegum frelsissviptingarbrotum líkt og nú er, enda varða slík brot þyngri refsingu en ef brotið er gegn mansalsákvæði hegningarlaganna.

Í 1. umr. um þetta mál benti ég á að þó svo að maður hefði skilning á því að löggjafinn og þeir sem hafa með refsirétt og refsivörslumálefni í samfélaginu að gera telji eðlilegt að refsing fyrir mansal verði þyngd eru tvær hliðar á þeim peningi, ef svo má segja. Önnur er sú að maður hefur auðvitað samúð með því að þeir sem stunda mansal hljóti makleg málagjöld fyrir það ef upp um það kemst. Mansal er alvarlegur glæpur sem venjulega er framinn af mönnum eða hópum sem stunda skipulagða glæpastarfsemi og þar undir er ekki einungis mansal heldur venjulega líka fíkniefnainnflutningur og fíkniefnasala og í rauninni alls kyns brotastarfsemi. Þetta þýðir að við erum að fjalla um ofbeldismenn, brotamenn sem eru ekki beinlínis hvítþvegnir kórdrengir heldur harðsvíraðir glæpamenn. Það er hætta á því, og ég vakti athygli á því við 1. umr., að þegar refsing fyrir þessi brot er hækkuð úr 8 árum í 12 ár og refsiramminn færður býsna nálægt refsiramma fyrir manndráp muni þeir sem í hlut eiga, sem eru þessir hörðu glæpamenn, hugsanlega grípa til róttækari aðgerða til að koma í veg fyrir að upp um þá komist.

Það er þannig í mansalsmálum að helstu vitnin eru fórnarlömbin sjálf. Sjaldan geta aðrir borið um það hvort hið tiltekna afbrot sem frumvarpinu er ætlað að fjalla um hafi átt sér stað eða ekki þannig að venjulega eru fórnarlömb mansalsins lykilvitni í mansalsmálum. Það að hækka refsihámarkið og víkka refsirammann út kann að leiða til þess að þessir glæpamenn sem venjulega svífast einskis til að ná vilja sínum fram munu væntanlega gera það gagnvart vitnunum og þá brotaþola, og ganga lengra í þá átt að kúga þá og þvinga til að segja ekki til um það sem gerst hefur .

Þetta eru sjónarmið sem mikilvægt er að menn hafi í huga varðandi þessa lagabreytingu og líti til þess þegar hún kemur til framkvæmda. Þetta kann að leiða til þess að menn þurfi þá að grípa til annarra aðgerða samhliða, t.d. að auka vitnavernd, auka vernd þeirra sem bera vitni sem í þessum málum eru alltaf fórnarlömb. Hér haldast því fleiri hlutir í hendur og er mikilvægt að skoða þessi mál öll í samhengi því að þau eru margslungin og flókin. Hér er ekki um að ræða baráttu gegn einhverjum smákrimmum og smáþjófum heldur útspekúleruðum og stórhættulegum glæpamönnum sem engin ástæða er til að taka á með einhverjum silkihönskum. Menn þurfa að vera með alla þræði slíkra mála á hreinu og sjá alla leiki í stöðunni fram í tímann. Ég vildi bara koma þessum ábendingum á framfæri. Að öðru leyti styð ég þetta mál og vonast til að þessi breyting hafi þau áhrif sem ætlað er að ná með frumvarpinu.