139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna.

866. mál
[22:34]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna. Það hefur nokkuð verið fjallað um þetta mál í tengslum við frumvarp sem nýverið var lagt hér fram, klárað og afgreitt, um heildarlöggjöf um rannsóknarnefndir. Það hefur verið til umfjöllunar í allsherjarnefnd frá því í desember sl., lagt fram af forsætisnefnd í kjölfar skýrslu þingmannanefndar og ályktunar sem samþykkt var frá henni einum rómi hér í þinginu, 63:0 ályktunarinnar eins og hún hefur verið kölluð.

Þessi tillaga felur í sér að Alþingi ályktar að skipa þriggja manna rannsóknarnefnd sem er ætlað að leita sannleikans um aðdraganda og orsök rekstrarerfiðleika og gjaldþrots íslenskra sparisjóða. Sérstaklega er tilgreindur sá rammi sem þessari rannsókn er ætlaður, hún byggist að öllu leyti á þeirri löggjöf sem við samþykktum fyrr í dag um rannsóknarnefndir.

Í stuttu máli er lagt til að forsætisnefnd verði falið að skipa þriggja manna nefnd til að rannsaka starfsemi íslenskra sparisjóða í samræmi við frumvarp til laga um rannsóknarnefndir sem allsherjarnefnd hefur afgreitt. Hér er því lögð fram tillaga frá allsherjarnefnd í heild sinni sem við gerum ráð fyrir að taka til umræðu í nefndinni á milli fyrri og síðari umræðu, um þessa þingsályktunartillögu. Ég mun þá gera frekari grein fyrir þeim sjónarmiðum sem liggja til grundvallar.