139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

verslun með áfengi og tóbak.

703. mál
[23:00]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem upp í andsvari til þess að undirstrika afstöðu mína í þessu máli. Ég tel að þetta sé enn eitt dæmið um ákveðna forsjárhyggju sem einkennir oft og tíðum núverandi ríkisstjórn. Það að afnema í fyrsta lagi stjórnina hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og setja hana beint undir ráðherra, það kann að vera hægt að finna réttlætingu fyrir því á öðrum sviðum en þetta er fyrirtæki sem verslar með ákveðna vöru. Ég held að það sé ekki rétt að það verði beint undir boðvaldi ráðherra, bara þannig að afstaða mín liggi fyrir hvað það varðar.

Ef við skoðum það sem frumvarpið á að færa fram og stuðla betur að betri vínmenningu, ég held að það sé þörf umræða. En ég held hins vegar að sú leið sem verið er að fara hér sé ekki endilega sú rétta. Mér leiðist að öll þessi forsjárhyggja sem kemur fram í ýmsum málum, hvort sem það er með sölu á tóbaki í apótekum eða takmarkanir á ákveðnum auglýsingum, að alltaf sé farið fram með breytingar til að stuðla að minni neyslu og betri vínmenningu. Það er ekkert í þessu frumvarpi sem bendir til þess að það verði skynsamlegri neysla eða minni neysla á áfengi. Þvert á móti hefur það sýnt sig að við Íslendingar erum með eina hörðustu áfengislöggjöf í heimi en um leið sé ég ekki að vandinn sé eitthvað tiltölulega minni hér en annars staðar, síður en svo. Ég held að við eigum miklu frekar að vinna þetta með aðilum á markaði, þá er ég ekki að tala bara um fyrirtækin eða um innflytjendur og annað, heldur líka heimilin og aðra sem eru svona stóru leikendurnir í samfélaginu.

Það er svo margt í þessu máli sem undirstrikar þá tilhneigingu ríkisstjórnarinnar að hafa vantrú á því sem fyrir er (Forseti hringir.) í staðinn fyrir að reyna að fara aðrar leiðir en bara eingöngu boð- og bönnfarveginn.