139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

skeldýrarækt.

201. mál
[11:01]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við framsóknarmenn fögnum því að þetta frumvarp verði að lögum. Við höfum þó þann fyrirvara á, og það kemur reyndar fram í samþykkt meiri hlutans, að lögin skuli endurskoða innan þriggja ára og jafnvel eigi að hefja þá endurskoðun strax og þau hafa tekið gildi vegna þess að menn eru sammála um að þetta sé dálítið flókið ferli sem lögin bjóða upp á fyrir þessa nýju atvinnugrein. Hins vegar þarf atvinnugreinin einhvern ramma. Við fögnum þessu og munum því samþykkja málið, en höfum miklar efasemdir um að þetta verði sú bylting fyrir þessa nýju atvinnugrein að það verði auðveld leið fyrir ný fyrirtæki að fara inn. Það gæti þess vegna farið svo að við þyrftum að fjalla aftur um skeldýrarækt fljótlega á næstu þingum en látum á þetta reyna. Nokkrar greinar eru þó vafasamar eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson kom inn á varðandi 16. gr. og við munum hugsanlega sitja hjá við einstakar greinar.