139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

skeldýrarækt.

201. mál
[11:02]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þau sjónarmið sem hér hafa verið reifuð um mikilvægi þess að búa þessari nýju atvinnugrein einhvern ramma til að starfa eftir. Það eru ákveðnir þættir í þessu frumvarpi sem valda manni áhyggjum. Það á sérstaklega við um þau ákvæði sem snúa að leyfisveitingum en þar eru margir þröskuldar og ferli, sem við sjáum svo sem á öðrum vettvangi í atvinnulífinu, sem getur tekið langan tíma og lengt þannig möguleika fyrirtækjanna til að koma sér í tekjuafkomu.

Þarna er annað ákvæði sem ég hef alvarlegar athugasemdir við en það fjallar um framsalið. Við horfum upp á það að einstaklingum, sem byggja sig upp í þessari grein og hafa lítinn aðgang að fjármagni, þeir gera það jafnvel með eigin vinnuafli og eigin atorku fyrst og fremst og eigin fjármagni, er ekki heimilt að selja fyrirtæki sín eftir að tilraunatímabili lýkur og þurfa því að losa sig með einhverjum hætti út úr sínum rekstri. Aðstæður geta breyst hjá mönnum, þeir geta veikst eða annað og þeim er ekki heimilt að selja fyrirtæki sín, þá er fyrirtækið verðlaust. (Forseti hringir.) Þetta er eitthvað sem mér finnst algerlega ómögulegt. Ég hvet þingmenn til þess að þetta ákvæði verðið tekið út úr frumvarpinu. Mönnum hlýtur að vera heimilt að selja (Forseti hringir.) þau verðmæti sem þeir hafa náð að skapa sér.