139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

nálgunarbann og brottvísun af heimili.

706. mál
[11:14]
Horfa

Auður Lilja Erlingsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Í dag getum við sýnt þá staðreynd að við stöndum með þeim sem beittir eru ranglæti og viðurkennum að réttur þeirra sem búa við ofbeldi á heimilum sínum hljóti að vega þyngra en réttur þeirra sem beita ofbeldi. Hér kemur fram sú mikilvæga sýn að heimilisofbeldi er ekki einkamál heldur alvarlegt mein sem varðar samfélagið í heild og nauðsynlegt er að bregðast við. Hér er um verulegt réttlætismál að ræða sem ég fagna að nú lítur allt út fyrir að nái loksins fram að ganga eftir margra ára baráttu ýmissa aðila jafnt hér á þingi sem og ýmissa hagsmunasamtaka utan þings.