139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

828. mál
[11:26]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég fagna þessu frumvarpi sem gerir mögulegt að koma til móts við þá bændur í Skutulsfirði sem urðu að fella búpening sinn og missa þar af leiðandi af afurðum. Þetta heimilar að þeir komi inn í þann hóp sem nýtur beingreiðslu og stuðnings hvað það varðar og eins varðandi eldgosið í Eyjafjallajökli í fyrra en þar lengist umsóknarfrestur og aðgengi að bótum.

Varðandi eldgosið í Grímsvötnum vil ég taka fram að af hálfu ríkisstjórnarinnar gilda þar sömu reglur og sama aðkoma Bjargráðasjóðs og var um gosið í Eyjafjallajökli og verður stutt við það fólk sem lendir þar í tjóni með sama hætti.