139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

verslun með áfengi og tóbak.

703. mál
[11:42]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er bullandi klofningur innan raða okkar sjálfstæðismanna í þessu máli, a.m.k. milli mín og hv. þm. Péturs Blöndals. Ég held að eitt af því sem við höfum ekki fjallað nógu mikið um og ekki hefur tekist nógu vel til sé ríkisreksturinn. Ég held að ein af ástæðunum fyrir því að það hafi ekki tekist nógu vel sé sú að það hafi ekki verið nógu vel skilgreint hver ber ábyrgð þar. Það hefur hins vegar gengið afskaplega vel varðandi þetta góða fyrirtæki, ég held að þeim hafi tekist í ÁTVR býsna vel til við að sinna hlutverki sínu. Án nokkurs vafa er ein af ástæðunum sú að þar hefur verið öflug stjórn með hæfu fólki sem sinnir starfi sínu vel og það að færa þetta inn í fjármálaráðuneytið er skref aftur á bak. Ég greiði atkvæði gegn því.