139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

niðurstaða ESA um Icesave.

[11:50]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vildi ræða um fundarstjórn forseta vegna þess að fram kemur á mbl.is núna áðan að Eftirlitsstofnun EFTA hafi komist að niðurstöðu í Icesave-málinu þar sem niðurstaðan er sú að hún telur að íslenska ríkið hafi brotið í bága við löggjöf um evrópskar innstæðutryggingar og fái því þriggja mánaða frest til að greiða Bretum og Hollendingum. Það verður fróðlegt að sjá rökstuðning Eftirlitsstofnunarinnar fyrir þessari niðurstöðu en ég verð að segja að hún kemur ekki á óvart vegna þess að framkvæmdastjóri hennar, Per Sanderup, hafði fyrir fram gefið sér þessa niðurstöðu sem er afar óvenjulegt, að eftirlitsstofnanir eða dómarar lýsi afstöðu sinni fyrir fram til sakarefnisins áður en menn hafa fengið að tjá sig um það.

Þessi frétt hlýtur að kalla, virðulegi forseti, á viðbrögð frá forustumönnum ríkisstjórnarinnar við þessari niðurstöðu, yfirlýsingu um hvort þeir ætli ekki að taka hraustlega til varna fyrir EFTA-dómstólnum, (Forseti hringir.) hvernig að þeirri vörn verður staðið, hvort ekki verði boðað til fundar í hv. utanríkismálanefnd og hvort stjórnarandstaðan (Forseti hringir.) verði ekki upplýst um alla þætti málsins.