139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[12:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur sjálfur kosið að standa utan þingflokka. Það er eðlilegt að honum þyki þá kannski að sumu leyti fram hjá sér gengið við afgreiðslu mála í þinglok því auðvitað fer mikilvægt starf fram í þingflokkum. Þingflokkarnir hafa með sér samræðu og eins fer fram samræða innan þingflokkanna þar sem þingmenn sem þeim tilheyra hafa færi á því að koma fram þeim sjónarmiðum sem þeir hafa verið kjörnir fyrir og deila upplýsingum á milli nefnda. Það er ekki þannig að mál, sérstaklega ekki jafnviðamikil mál eins og hér eru á ferðinni, ráðstafanir í ríkisfjármálum, sem spanna fjölmörg málasvið, séu einangruð við eina nefnd.

Fyrir utan þá nefnd sem ég veiti forustu, efnahags- og skattanefnd, varðar þetta mál t.d. fjárlaganefnd, heilbrigðisnefnd og félags- og tryggingamálanefnd. Ekkert er eðlilegra en að þingflokkarnir noti þingflokksfundi sína til að ræða þessi mál og þingflokkarnir ræði síðan saman um hvernig best sé að leiða þau til lykta. Það er mikilvægt að hafa yfirsýn um afgreiðslu mála í lok þingsins. Síðan er það auðvitað hvers og eins þingmanns að velja hvort hann vill vera hluti af þessu skipulagi í þinginu og tilheyra þingflokki eða starfa sem sjálfstæður þingmaður. Hvort tveggja hefur sína kosti og galla.

Um aðgerðir fyrir skuldsett heimili og þátttöku lífeyrissjóðanna í þeim kemur mjög á óvart ef hv. þingmaður er á móti því að lífeyrissjóðirnir leggi þó þetta litla 1,4 milljarða í þær aðgerðir. Ég hafði skilið áherslu hans á almennar aðgerðir, sem ég get að mörgu leyti tekið undir, með þeim hætti. Slíkar almennar aðgerðir gætu haft í för með sér (Gripið fram í.) umtalsvert meiri kostnað en þennan fyrir lífeyrissjóðina.