139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[12:31]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa yfirlýsingu. Þetta er eiginlega í samræmi við það sem ég taldi, en ég hélt mig hafa heyrt annað hér áðan, en það kemur þá í ljós við útskrift, hvort hann hafi sagt að þetta yrði afgreitt hér á þinginu sem lög, sem verður þá ekki.

Mig langar til að spyrja um auðlegðarskattinn vegna þess að í nefndaráliti 3. minni hluta, sem ég stend að, ásamt með hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni, er bent á að tillögur meiri hlutans, um það að láta eignir, þegar talið er fram 2012, í árslok 2011 gilda nema hlutabréf, þar verði teknar eignir í árslok 2010. Á þetta geta menn spilað. Menn geta tekið lán og keypt hlutabréf sem eru með litla eign í árslok 2010 og þannig minnkað auðlegðarskattstofn sinn að vild. Það er spurning hvort nægilega mikið af slíkum bréfum verður til, en ég hugsa að eitthvað sé til, fyrirtæki sem hafa farið illa, og síðan geti menn gert samning um að selja þau aftur eftir áramót, kaupa þau fyrir áramót með láni, lánið dregur niður eignina, og ég mundi orða það á þann veg að þeir borgi auðlegðarskatt sem nenna. En ég sé ekki að menn hafi gert á þessu breytingu og ég sé ekki heldur að menn ætli að gera á því breytingu.

Svo er tæknileg athugasemd við verðtryggingu persónuafsláttar. Þar er talað um að taka eigi vísitöluna í byrjun og lok 12 mánaða tímabils, það eru alltaf 11 vísitöluhækkanir inni í því, ekki 12. Menn þurfa því að taka frá janúar til janúar, það er bara hreint tæknilegt, og ég er með tillögu að orðalagi á því.