139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[14:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ágætu ræðu en vil fyrst gera að umfjöllunarefni starfsendurhæfinguna og orð hans um fjölgun öryrkja. Það er nauðsynlegt, held ég, til að forðast misskilning að taka alveg skýrt fram að spárnar um fjölgun öryrkja á síðustu árum hafa alls ekki gengið eftir, satt að segja langt því frá. Það hefur verið tiltölulega lítil fjölgun í þeirra hópi, sem betur fer, þrátt fyrir hið gríðarlega atvinnuleysi. Það mætti kannski reyna að halda því fram að kenningarnar þar um hafi fallið. Ég held þó ekki að það sé rétt, ég held að kenningarnar um hættuna á því að öryrkjum fjölgi gríðarlega í kjölfar mikils atvinnuleysis eins og hér var hafi verið alveg réttar. Ég held einmitt að það starf sem hafið er til starfsendurhæfingar hafi skipt mjög miklu máli og forðað okkur frá miklu tjóni, bæði gagnvart þessum manneskjum, því að það er rétt hjá hv. þingmanni að það er auðvitað hrikalegt að þurfa að missa starfsgetu sína, og sömuleiðis hreint og beint fjárhagslega. En til að kraftur sé í starfsendurhæfingu þarf að kosta til hennar fjármunum. Hingað til hefur einfaldlega staðið á því og ég tel ekki neinn sóma að því fyrir þingið að fallast ekki á það þegar aðilar vinnumarkaðarins ná saman um það, atvinnurekendur og verkalýðshreyfing, að það eigi að verja verulegum fjármunum í þetta þarfa verkefni. Þá má Alþingi ekki láta standa á sér að lögfesta heimildir til að afla þeirra tekna. Það er sannarlega ekki hlutverk okkar að þvælast fyrir slíkum þjóðþrifamálum og átak í starfsendurhæfingu er einmitt til að koma í veg fyrir aukna örorku.