139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[14:07]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Jú, jú, menn geta talað blítt um að jafna eigi lífeyriskjör eftir mörg ár en það gerist ekki nokkur skapaður hlutur til að byrja með, ekki neitt. Meira að segja ASÍ er aðallega á móti skattlagningu lífeyrissjóðanna vegna þess að það er verið að auka mismununina, frú forseti, einmitt með því að skattleggja lífeyrissjóðina sem kemur bara niður á almenningssjóðunum. Þeir þurfa að skerða lífeyri sinn en opinberu sjóðirnir þurfa ekki að skerða neitt þannig að mismunun í lífeyriskerfinu vex.

Svo talar hv. þingmaður um lífeyrissjóð þingmanna því að það hentar í umræðunni að vera góður. Ég kalla þetta lýðskrum og mér finnst mjög slæmt þegar hv. þingmaður getur aldrei talað um nokkurn skapaðan hlut án þess að hæla ríkisstjórninni og tala niður til stjórnarandstöðunnar. Þetta er ekki gott til samvinnu, ég vil bara segja það.

Í félagsmálanefnd er allt annar andi. Þar vinna menn saman að frumvörpum og þá tala menn ekki svona, m.a. um hrakspár minni hluta. Minni hlutinn hefur vakið athygli á að skattahækkanir ríkisstjórnarinnar hafa valdið miklum skaða. Það vill svo til að þjóðfélagið er nánast orðið stopp, það getur vel verið að hv. þingmaður viti það ekki. Það getur vel verið að hann viti ekki um stöðnunina, viti ekki hve margir flytja til útlanda á hverjum degi. Það getur verið að hann viti það ekki, (TÞH: Ekki gleyma því sem við höfum komið í veg fyrir.) fyrir utan það sem við höfum komið í veg fyrir, já. Svona orðalag og það að fara ofan í hjólförin og tala um hrakspár minni hlutans o.s.frv. er ekki vænlegt til samstarfs. Hrakspárnar hafa gengið eftir. Vextir eru orðnir lágir, jú, jú, það er fínt, verðbólgan er lág, mjög gott, en það gerist samt ekki neitt. Fjárfesting er í algjöru lágmarki. Atvinnuleysi er vaxandi. Er þetta góð staða? Ég held ekki en það getur vel verið að hv. þingmaður telji það ljómandi gott. Ég segi að það er gott að vinna í hv. félagsmálanefnd.