139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[14:19]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Frumvarpið er komið fram í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við undirritun kjarasamninga. Þar af leiðandi felur það í sér mörg ákvæði sem snerta kjarasamningana beint.

Frumvarpið er 17 greinar og tæpur helmingur greinanna er beint vegna yfirlýsingarinnar og rúmur helmingur eru leiðréttingar á ýmsum skattalögum og breytingar á skattalögum sem þegar hafa verið samþykkt, mest frá haustinu 2009. Með nefndaráliti meiri hlutans fylgja breytingartillögur og þær eru við 14 greinar frumvarpsins, 14 greinar af 17, og þá ber að gæta þess að þegar taldar eru 17 greinar er gildistökuákvæðið talið með og annað slíkt. Það er algerlega ljóst að kastað var til höndunum við samningu þessa frumvarps.

Einhverjar af greinunum sem eru í frumvarpinu eru til bóta, aðrar eru sjálfsagðar lagfæringar til að geta framkvæmt skattalögin skammlaust. Jafnframt er ein breytingin afrakstur af samningum minni hlutans og meiri hlutans um þinglok og það er 11. gr. sem snýr að skattlagningu lífeyrissjóða. Margir halda að stjórnarandstaðan geti ekki haft áhrif á mál á Alþingi nema einhverjar smálagfæringar, lagt gott til málanna og annað slíkt. En ég held að þetta ákvæði, skattlagning lífeyrissjóðanna sem við sjálfstæðismenn lögðum ofurþunga á að mundi falla úr gildi, sýni að stjórnarandstaðan getur haft árangur sem erfiði við vissar kringumstæður.

Samkomulagið sem var gert í gærkvöldi var þríþætt. Það var í fyrsta lagi að 11. gr. mundi falla út, þ.e. skattlagning lífeyrissjóða. Í öðru lagi að lögfesting á reglugerðum Seðlabankans vegna gjaldeyrishafta taki gildi, við komum í veg fyrir það og gátum beint því inn á haustþing þar sem ætlunin er að það frumvarp verði afgreitt með breytingum. Ef sumarið sýnir að þörf sé á að hafa gjaldeyrishöft lengur þá munu verða lögfest ný lög sem efnahags- og skattanefnd mun hafa gott tækifæri til að fjalla um í sumar.

Í þriðja lagi voru ýmsar breytingar á svokölluðu minna frumvarpi ríkisstjórnarinnar í fiskveiðistjórnarmálum og árangurinn af því er ég síst ánægður með af þessum þremur málum þar sem 2. gr. í því, sem fjallar um kerfisbreytingu, hvernig fiskur er færður úr aflamarkskerfinu yfir í félagslega kerfi sjávarútvegsins, mun koma mjög illa niður á mörgum fyrirtækjum sem sérstaklega eru í uppsjávarveiðum.

Víkur nú aftur að frumvarpinu. Breytingartillaga frá meiri hlutanum er að 1. gr. falli brott en hún fjallar um afdráttarskatta á vexti til útlanda. Ástæðan fyrir því að þessi grein fellur brott er sú að í frumvarpinu, sem átti að vera lagfæring á reglu sem var sett inn haustið 2009, en var ómöguleg í framkvæmd — sem sýnir enn og aftur kannski slæleg vinnubrögð við samningu frumvarpsins — það er orðið að samkomulagi að það verði tekið upp í tengslum við svokallaðan septemberstubb, þá verði þetta lagfært. En síðan eru ýmsar breytingar á frumvarpinu. Það eru flóknir hlutir. Til dæmis fjallar 4. gr. um það að þeir sem reikna sér endurgjald skuli telja til tekna 50% af heimiluðum úthlutuðum arði samkvæmt lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög þegar arðurinn er umfram 20% af skattalegu bókfærðu eigin fé þess í árslok. Það sem er merkilegt við þetta ákvæði er að þarna mun verða til ný tegund af tekjum. Við þekkjum hugtökin fjármagnstekjur annars vegar og launatekjur hins vegar og við vitum að þetta er skattlagt á mismunandi hátt en hérna kemur upp sú sérstaka staða að þessi skattur er ekki það sem við köllum samhverfur. Gagnvart fyrirtækinu eru þetta fjármagnstekjur sem eru borgaðar til einstaklings sem á að meðhöndla eins og launatekjur og borga þar af leiðandi launaskatta eða launaskattsprósentu af þessum arði.

Af hverju eru þetta ekki laun sem fyrirtækið er að borga út? Jú, vegna þess að, eins og ég sagði áðan, þetta er arður og þessi arður gagnvart fyrirtækinu myndar hvorki stofn til tryggingagjalds né lífeyrisiðgjalds né heldur telst hann frádráttarbær rekstrarkostnaður hjá greiðandanum. Það að ekki skuli vera greitt tryggingagjald og lífeyrisiðgjald bendir til að hér sé verið að greiða út arð. Þetta skapar, fyrir utan það að þetta er flókið í framkvæmd, ýmis álitamál. Eitt af alvarlegustu álitamálunum að mínu mati er að þetta innleiðir nýtt fjármagnstekjuskattsþrep sem er mun hærra en það þrep sem nú er í gildi þannig að framvegis, þegar talað verður um hver sé fjármagnstekjuskattur á Íslandi, verða gefin upp tvö þrep, annars vegar 20% þrep og hins vegar miðþrepið í tekjuskattinum, sem er nálægt 40%. Þarna er verið að flækja skattkerfið eins og svo oft áður en það eru jafnframt góðar breytingartillögur frá meiri hlutanum. Í 10. gr. er til dæmis fallið frá því að takmarka ívilnun vegna rafrænnar þjónustu og það er mjög gott.

Síðan eru hlutir eins og bankaskatturinn. Þarna er verið að setja nýja skatta á fjármálaþjónustu á Íslandi. Þessi skattur á að vera til að standa undir greiðslu ótekjutengdra vaxtabóta sem eru 3 milljarðar á þessu ári og 3 á því næsta og eru ráðstafanir til að koma til móts við skuldug heimili. Ég hefði viljað spyrja þeirrar spurningar hvort ekki hefði verið rétt að fresta þessum bankaskatti nákvæmlega á sama hátt og fresta á skattlagningunni á lífeyrissjóðina vegna þess að það átti að reyna að finna aðra tekjustofna til að skattleggja til að finna aðrar leiðir til að fjármagna vaxtabæturnar. Þá er mér spurn: Af hverju var þessari hækkun eða þessum sérstaka skatti á fjármálafyrirtæki ekki frestað líka og reynt að gera þetta heildrænt? Það hefði engu máli skipt. Fjármálafyrirtækin eiga ekki að greiða þetta fyrr en 1. nóvember þannig að það hefði vel verið hægt að afgreiða núna á stubbnum í september eða í byrjun nýs þings sem hefst 1. október í haust. Þetta er kannski ekki alvarlegur skafanki en samt sem áður hefði verið æskilegt að gera þetta allt saman í samhengi.

Síðan eru hlutir eins og í 3. gr. þar sem verið er að breyta skattlagningu á milli fyrirtækja á arðgreiðslum og söluhagnaði. Þetta ákvæði eða þessi tilslökun sem hér er gerð mun stuðla að dreifðari eignaraðild en ákvæðið eins og það var áður og er það vel.

Á heildina litið er um frumvarp að ræða sem ég persónulega hefði kosið að hefði verið mun betur gert og mun betur hugsað. Í störfum nefndarinnar komu fram margvíslegar og alvarlegar athugasemdir frá ýmsum aðilum þar á meðal ríkisskattstjóra um einstakar greinar en það sem ég held að þetta geti kennt okkur á Alþingi er að vanda þarf betur til framlagningar frumvarpa. Við sjáum frumvarp sem að mörgu leyti var vanhugsað og sem er algerlega í samræmi við það sem við sáum bæði með litla og stóra frumvarpið í fiskveiðistjórnarmálinu sem lögð voru fram. Það voru vanhugsuð frumvörp og algerlega vanreifað til hvers var verið að leggja þau fram, hvaða áhrif þau höfðu og því um líkt. Ég held að Alþingi eigi að geta lært af þessu að vanda betur til verka og ég sé að hér stígur hæstv. utanríkisráðherra í salinn. Það er vandaður maður.