139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

veiting ríkisborgararéttar.

882. mál
[14:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég heyrði síðustu orð hv. framsögumanns um auðmenn sem vilja koma til Íslands og það sé ógurlega erfitt fyrir þá. Ég vil benda á að þriðjungur mannkyns þarf að lifa á minna en dollara á dag, ef ég man rétt, og er afskaplega fátækur. Ég geri ráð fyrir því að stór hluti þess hluta mannkynsins mundi gjarnan vilja flytja til Íslands svo ég tali nú ekki um þá sem eru að deyja úr hungri í heiminum sem eru 8 milljónir á ári. Við búum í sérstakri stöðu að hafa mjög góð lífskjör og ég reikna með því að fjöldi manna í heiminum mundi vilja flytja hingað og fá ríkisborgararétt.

Nú er spurningin hvort við séum svo félagslega sinnuð að við viljum veita þeim sem hafa nógu mikið af peningum ríkisborgararétt en sleppa öllum hinum. Ég er það ekki, ég gæti ekki fallist á það að menn sem eiga nógu mikið af peningum fái að koma til Íslands. Réttlætiskennd mín bannar mér það á sama tíma og ég banna fólki sem er virkilega í nauð að koma til Íslands.