139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

veiting ríkisborgararéttar.

882. mál
[14:37]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er undarlegur siður sumra hv. þingmanna sem hafa verið lengi að störfum á Alþingi að búa sér til forsendur og búa sér til skoðanir þess sem á undan fór í ræðustól, gera þeim upp einhverjar sérstakar skoðanir og fara síðan í rökræðu við þá á grundvelli þeirra skoðana sem þeir hafa digtað upp fyrir þeirra hönd. Hér var ekki verið að halda neinu slíku fram að veita ætti auðmönnum einhvern forgang umfram fátæka. Það er einfaldlega verið að greina frá því að sú umræða mun fara fram á vettvangi allsherjarnefndar hvort þeir sem sækjast eftir að koma til Íslands með fjárfestingar fái einhvers konar atvinnuréttindi eða búsetuleyfi á grundvelli þeirrar óskar. Það er eitthvað sem á eftir að taka afstöðu til. Það er enginn að tala um að veita einhvern forgang í þessum efnum. Það eina sem ég hef sagt í þessu samhengi er að þetta er umræða sem þarf að fara fram á Íslandi. Það er einfaldlega þannig að í tilfellum þeirra einstaklinga sem hér er veittur ríkisborgararéttur er á engan hátt horft til efnahags þeirra. Ef menn væru með þau sjónarmið að leyfa ætti auðmönnum að fá ríkisborgararétt þyrfti fyrst að vera til staðar einhver neitun vegna þeirra sem eru fátækir. Slíkt er alls ekki fyrir hendi. Það er ekki horft til þess í okkar kerfi og því síður að verið sé að veita auðmönnum einhvern umframaðgang. Það er af og frá að svo sé. Það er af og frá að sá sem hér stendur sé að leggja eitthvað slíkt til og ég vil að það komi skýrt fram í framsögu minni um þetta mál.