139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

veiting ríkisborgararéttar.

882. mál
[14:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona að ég hafi ekki verið að gera hv. þingmanni upp skoðanir en ég heyrði hann tala um nálarauga og það væri erfitt fyrir auðmenn að fara í gegnum það nálarauga. Í því fannst mér felast ákveðinn vilji til að víkka það nálarauga þannig að þeir kæmust inn en það má vel vera að það hafi verið misskilningur.

Ég er líka að lýsa skoðun minni fyrir fram á þeim hugleiðingum sem hafa komið fram í þjóðfélaginu um að þessir menn eigi að vera velkomnir til landsins á meðan flóttamönnum sem gjarnan vildu búa hérna er vísað úr landi og fjölda annars fólks sem gjarnan vildi flytja til Íslands ef það ætti kost á því. Ég get meira að segja fallist á þau rök að við getum ekki fyllt landið af flóttamönnum frá þriðja heiminum, efnalausum flóttamönnum, vegna þess að það mundi setja þjóðfélagið á hvolf ef við fengjum hingað milljón eða tvær eða þrjár af slíkum einstaklingum.

Ég var bara að lýsa þessari skoðun af því að ég heyrði þetta hjá hv. þingmanni um nálaraugað og þá taldi ég að hann hefði einhverja skoðun á þessu máli en það má vera að hann hafi enga skoðun.