139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

grunnskólar.

747. mál
[14:43]
Horfa

Frsm. menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. menntamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008. Með þessu frumvarpi er ætlunin að styrkja réttindi nemenda til náms og velferðar og auka svigrúm skóla og sveitarfélaga til nánari útfærslu á lögbundinni skyldu sinni, einkum í því skyni að auka svigrúm þeirra til hagræðingar á þrengingartímum. Einnig er mennta- og menningarmálaráðuneyti gefin skýrari lagastoð til að útfæra tiltekin atriði nánar í reglugerðum.

Ég vil geta þess strax í upphafi að menntamálanefnd hefur farið vel yfir þetta frumvarp og haft að leiðarljósi í vinnu sinni að tryggja rétt nemenda eins og kostur er, jafnframt því að meta í hverju tilviki hvort málefnalegar forsendur liggja til grundvallar óskum sveitarfélaga um aukið svigrúm til hagræðingar í rekstri eða undanþágna frá ákvæðum gildandi laga um grunnskóla. Ég mun í framsöguræðu minni leggja sérstaka áherslu á þau ákvæði frumvarpsins sem nefndin gerir tillögur um að verði breytt en breytingartillögur nefndarinnar koma fram í sérstöku þingskjali í átta liðum.

Af öðrum ákvæðum er sérstök ástæða til að fagna ákvæðinu um skólasöfn og hinu nýja ákvæði um góðan skólabrag en þar er kveðið á um að hver grunnskóli móti sér stefnu um forvarnir gegn hvers konar ofbeldi í skólaumhverfinu.

Ég vil í upphafi fara nokkrum orðum um málefni fósturbarna en í frumvarpinu er lagt til að ráðherra menntamála gefi út stjórnvaldsfyrirmæli í formi reglugerðar um skólagöngu fósturbarna og bregðist þannig við ágreiningi sem skapast hefur milli sveitarfélaga um kostnaðarskiptingu vegna skólagöngu þeirra. Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því að þess eru dæmi að fósturbörnum hafi verið synjað um skólavist eða að mikil röskun hafi orðið á skólagöngu þeirra í viðtökusveitarfélagi vegna deilna um kostnaðarskiptingu. Þetta er að mínu viti óásættanlegt og í fullkomnu ósamræmi við fyrirmæli laga. Í 5. gr. laganna er kveðið á um skýlausan rétt fósturbarna til skólagöngu í lögheimilissveitarfélagi fósturforeldra. Nefndin áréttar í þessu sambandi að í 13. gr. grunnskólalaganna kemur fram að allir nemendur grunnskóla eigi rétt á námi við sitt hæfi og byggist ákvæðið á 76. gr. stjórnarskrárinnar þar sem kveðið er á um að öllum skuli vera tryggður réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi.

Nefndin telur einsýnt að hagsmunir fósturbarna hljóti hér að vega þyngra en fjárhagslegir hagsmunir sveitarfélaga og tryggja þarf að þau njóti sömu þjónustu og önnur börn í viðkomandi sveitarfélagi sem þau flytjast til, óháð lögheimili. Nefndin leggur til veigamiklar breytingar á 1. gr. frumvarpsins til að tryggja breiðari aðkomu hlutaðeigandi aðila, ekki síst barnaverndaryfirvalda, að þeirri reglugerðavinnu sem fram undan er við að eyða óvissu um framkvæmd þessara mála en ég legg á það þunga áherslu að í þeirri vinnu er mikilvægt að réttur nemenda verði í skýrum forgangi.

Nefndin telur einnig mikilvægt í þessu sambandi að haft verði samráð við Barnaverndarstofu sem þá stjórnsýslustofnun sem fer með daglega stjórn barnaverndarmála og nefndin leggur jafnframt til að komið verði á fót sérstakri úrskurðarnefnd skipaðri fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Barnaverndarstofu sem hafi það hlutverk að kveða upp úrskurði þegar upp koma ágreiningsmál er varða skólagöngu fósturbarna.

Ég vil einnig nefna að nefndin leggur til þá breytingu á 1. gr. að þegar um er að ræða mat á aðstæðum og möguleikum viðkomandi grunnskóla til að koma til móts við þarfir fósturbarns áður en því er ráðstafað í fóstur skuli barnaverndarnefnd kanna aðstæður í samráði við skólayfirvöld enda mikilvægt að fyrir liggi heildstætt mat á viðkomandi grunnskóla með hliðsjón af þörfum barnsins áður en ákvörðun er tekin.

Í frumvarpinu er að finna tvær undanþáguheimildir sem ætlað er að koma til móts við sjónarmið einstakra skóla, einkum fámennra. Annars vegar er um að ræða heimild til undanþágu frá lagaskyldu um starfrækslu skólaráðs og hins vegar frá ákvæði laganna um starfrækslu nemendaverndarráðs. Menntamálanefnd fellst ekki á þau sjónarmið að fámenni geti talist fullgild rök fyrir því að veitt sé undanþága frá starfrækslu þessara ráða sem bæði eiga að gegna mikilvægu hlutverki í skólastarfinu við að tryggja og verja réttindi nemenda. Nefndin telur mikilvægt að skólaráð starfi í öllum grunnskólum ráðsins til að tryggja nauðsynlegt samráð skólastjórnenda, kennara, nemenda og foreldra um grundvallarþætti skólahaldsins, svo sem skólanámskrá, starfsáætlun skóla, fyrirhugaðar breytingar á skólahaldi og málefni er tengjast öryggi, aðbúnaði og velferð nemenda.

Á sama hátt telur nefndin mikilvægt að nemendaverndarráð séu starfrækt í öllum skólum sem tryggi réttindi og þjónustu við nemendur sem þurfi á sérstakri aðstoð að halda, hvort sem þar er um að ræða sérkennslu, félagslega þjónustu við námsráðgjöf eða annað. Hins vegar telur nefndin eðlilegt að heimila fámennum skólum við tilteknar aðstæður aukið svigrúm gagnvart lögum og reglugerðum varðandi framsetningu þessara ráða og leggur til breytingar á frumvarpinu þar að lútandi.

Virðulegi forseti. Fjallað er um sjálfstætt starfandi skóla í 8. gr. frumvarpsins. Í frumvarpinu er ætlunin að setja sérstaka lagastoð fyrir gerð þjónustusamninga við slíka skóla og enn fremur er tilgreint að ekki sé heimilt að gera slíka samninga til lengri tíma en sjö ára í senn. Fram kom hjá umsagnaraðila að þessi tímafrestur væri of skammur í ljósi þeirra fjárhagslegu skuldbindinga sem fylgja sjálfstæðum rekstri skóla og þeim kostnaði sem hlýst af stofnun þeirra. Nefndin bendir á að skólaskylda á grunnskólastigi er að jafnaði tíu ár, samanber 1. mgr. 3. gr. grunnskólalaga, og ákvæðið um sjö ára þak á þjónustusamningi hlýtur því að orka tvímælis.

Það er niðurstaða nefndarinnar að ekki séu sérstök rök fyrir því að vera með tímasetta þjónustusamninga við sjálfstætt starfandi skóla og leggur nefndin til breytingar á ákvæðinu því til samræmis en jafnframt þá breytingu að mikilvægt sé að veita heimild til riftunar á samningum ef um vanefndir á þeim er að ræða.

Virðulegi forseti. Vík ég þá máli mínu að einni mikilvægustu breytingartillögu nefndarinnar við frumvarpið. Hún lýtur að ákvæði til bráðabirgða. Þar er fjallað um sveigjanleg skólastig og rétt grunnskólanema til að stunda nám í einstökum námsgreinum á framhaldsskólastigi meðan þeir eru í grunnskóla. Þessi réttur er viðurkenndur í 26. gr. grunnskólalaganna en í reynd hefur fjárhagslegt svigrúm framhaldsskóla til að veita grunnskólanemum slíka þjónustu verið skert vegna niðurskurðar sem rekja má til bankahrunsins. Því er í ákvæði til bráðabirgða gert ráð fyrir að sú tilhögun verði í reynd framlengd til 1. ágúst 2013, þ.e. að grunn- og framhaldsskólar hafi frest til þess tíma til að ganga frá samningum um hvernig staðið verði að því að virða þennan rétt nemenda samkvæmt lögunum.

Nefndin fjallaði ítarlega um þessi sveigjanlegu skólastig grunnskóla og framhaldsskóla og kom þar meðal annars fram að misbrestur væri á því að framhaldsskólar mætu til eininga þá áfanga sem grunnskólanemendur hafa lokið í framhaldsskólum. Þetta á frekar við um framhaldsskóla í Reykjavík en á landsbyggðinni. Fram kemur í rannsókn Gerðar G. Óskarsdóttur um nám á mörkum grunn- og framhaldsskóla að einungis þriðjungur grunnskólanemenda í Reykjavík sem tekið hefur einingar á framhaldsskólastigi hefur fengið þær metnar inn í framhaldsskólana. Meginskýringin á þessu virðist vera sú að bekkjaskólar líta ekki á námsframvindu í áföngum og námseiningum heldur er hver námsgrein skilgreind eftir skólaárum og/eða önnum og svigrúmið lítið til mismunandi samsetningar námsins eins og tíðkast í áfangaskólum. Hér er vert að benda á að skólameistari hvers skóla ber ábyrgð á mati á fyrra námi nemenda og hvorki lög né aðalnámskrá kveða í reynd skýrt á um skyldur skóla í þessum efnum.

Nefndin bendir á að í einhverjum tilvikum hefur verið ofgreitt fyrir fyrstu áfanga framhaldsskóla og er það mat ráðuneytisins að tvígreitt kunni að vera fyrir rúmlega 80 af 190 ársnemendum. Nefndin fékk sérstaka kynningu á MPA-ritgerð Þórunnar Jónu Hauksdóttur um samfellu í námi á milli grunnskóla og framhaldsskóla en megintilgangur hennar var að meta áhrif stefnumótunar um slíka hröðun í námi á námsframvindu bráðgerra nemenda. Niðurstöður þessarar ritgerðar voru athyglisverðar, þær sýndu að hröðun úr grunnskóla í framhaldsskóla veitir bráðgerum nemendum nám við hæfi og svarar félags- og tilfinningalegum þörfum þeirra auk þess sem hún hefur jákvæð áhrif á líðan og viðhorf nemenda. Jafnframt kemur fram að námsgengi og námsframvinda bráðgerra nemenda sem hraðað er úr grunnskóla í framhaldsskóla er framúrskarandi líkt og var í grunnskóla.

Það er samdóma álit nefndarmanna að afar mikilvægt sé að tryggja lögbundinn rétt grunnskólanema til að taka framhaldsskólaeiningar ef þeir uppfylla skilyrði þar um og vinda þurfi að því bráðan bug að leiðrétta þá annmarka sem komið hafa fram í framkvæmdinni, sérstaklega að takast á við þann vanda að verulegur hluti, allt upp undir 40%, þeirra grunnskólanemenda sem sannanlega leggur stund á og lýkur framhaldsskólaáföngum fær þá ekki metna í þeim framhaldsskóla sem hugur þeirra stendur til. Afleiðingarnar eru augljósar, umræddir nemendur þurfa að endurtaka áfangana með tilheyrandi tvítekningu á kennslukostnaði. Þetta er að mínu viti óásættanlegt í skólakerfi okkar, óverjandi sóun á fjármunum skólanna og ekki síður mannauði og tíma þeirra nemenda sem um ræðir.

Í ljósi framangreinds telur nefndin afar brýnt að tryggja verði jafnt aðgengi grunnskólanemenda að áföngum á framhaldsskólastigi óháð búsetu svo og að ekki sé tvígreitt fyrir sömu einingarnar. Þar af leiðandi leggur nefndin til að við gildistöku þessa frumvarps skuli ráðherra skipa starfshóp sem móti tillögur um það hvernig megi tryggja lögbundinn rétt nemenda í þessu efni jafnframt því að samræma gæðakröfur og mat framhaldsskóla á framhaldsskólaeiningum grunnskólanemenda.

Nefndin leggur til að starfshópurinn verði skipaður fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslensks sveitarfélaga og fulltrúum grunn- og framhaldsskóla og skili niðurstöðum til ráðherra eigi síðar en 31. mars 2012. Skal við það miðað að réttindi grunnskólanemenda samkvæmt grunnskólalögunum um að taka áfanga í framhaldsskólum verði virk frá og með skólaárinu 2012–2013, þ.e. ári fyrr en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Nefndin leggur til breytingar í þessa veru.

Það er jafnframt skilningur nefndarinnar, og mikilvægt að það komi fram, að framangreindar breytingar eigi ekki að hafa nein áhrif á stöðu þeirra grunnskólanema sem þegar hafa tekið eða munu taka framhaldsskólaáfanga á næsta skólaári.

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir þau atriði frumvarpsins sem nefndin gerir sérstakar tillögur um breytingar á og vísa um önnur atriði frumvarpsins til nefndarálits menntamálanefndar.

Ég vil í lokin nota tækifærið og þakka öllum nefndarmönnum fyrir afbragðsvinnu við meðferð þessa máls. Ég tel að nefndin hafi sýnt í verki einlægan vilja til að gera mikilvægar breytingar á frumvarpinu í þágu grunnskólanemenda í landinu og tel að sú áhersla á þjónustuhlutverk skólakerfisins við nemendur sem endurspeglast í vinnu nefndarinnar vísi okkur veginn um þær breytingar sem við þurfum að gera á áherslum og vinnubrögðum í skólakerfi okkar, m.a. til að takast á við þá staðreynd að við Íslendingar njótum þess vafasama heiðurs að eiga Evrópumet í brottfalli. Það er ekki nýtt vandamál en hingað til höfum við ekki fundið lausnir sem duga. Ég skora því á mína vösku félaga í menntamálanefnd að taka höndum saman á komandi þingi við að móta tillögur um aðgerðir til að takast á við þennan grundvallarvanda í skólakerfinu því að hann hefur sannarlega miklar samfélagslegar, efnahagslegar og persónulegar afleiðingar fyrir nemendur í þessu landi sem við getum ekki og eigum ekki að sætta okkur við.

Að lokum árétta ég að menntamálanefnd stendur sameinuð að því nefndaráliti sem ég hef kynnt um grunnskólafrumvarpið og leggur fram allmargar breytingartillögur á sérstöku þingskjali. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum.