139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

grunnskólar.

747. mál
[14:55]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram í máli hv. þm. Skúla Helgasonar, formanns menntamálanefndar, var mikið og gott samstarf um þetta mál innan menntamálanefndar. Allir nefndarmenn undirrita það álit sem fylgir þessu máli en þrír með fyrirvara, þar á meðal ég. Ég tel því ástæðu til að gera grein fyrir fyrirvara mínum við þetta annars ágæta mál.

Mest umræða varð í nefndinni um tvær greinar í þessu frumvarpi, þar af um málefni fósturbarna. Þar var nefndin sannarlega sammála um að setja hagsmuni fósturbarna í fyrsta sæti og að allar ákvarðanir um þá yrðu að vera teknar út frá réttindum og hagsmunum þessara barna en ekki út frá kostnaðarskiptingu sem ágreiningur hefur allt of oft komið upp um. Eins og kemur fram í nefndarálitinu er að okkar mati alveg skýrt að allir nemendur á grunnskólaaldri eigi rétt á námi við sitt hæfi. Það ákvæði byggir á 76. gr. stjórnarskrárinnar, og í 5. gr. laga um grunnskóla er líka kveðið á um skýlausan rétt fósturbarna til skólagöngu í lögheimilissveitarfélagi fósturforeldra. Hins vegar hafa menn svo sem verið sammála um að lögheimilissveitarfélagið greiði þennan almenna kostnað fyrir fósturbarnið þó að það fari yfir í annað sveitarfélag en ýmis annar aukakostnaður hefur þá bæst við við flutninginn, eins og skólaakstur eða mismunandi mat á milli þessara sveitarfélaga um þá þjónustu sem viðkomandi barn þarf á að halda. Þar hefur ágreiningurinn komið upp. Svona er okkar tillaga um hvernig eigi að koma á skýrum leikreglum á milli sveitarfélaganna og þeirra sem koma að barnaverndarmálum um það hvernig skuli farið með þetta mál. Ég tel að við höfum komið með ágætistillögu um hvernig þetta eigi að fara fram.

Ég hvet formann menntamálanefndar til að eiga í samstarfi við félags- og tryggingamálanefnd um hvernig við fylgjum þessu eftir og tryggja að við fáum upplýsingar um að við séum raunverulega komin með varanlega lausn á þessu máli. Það er mjög mikilvægt og það væri hugsanlega hægt að tryggja það með því að við fengjum einhvers konar minnisblað eða skýrslu árlega um það hvernig þessu hefur verið háttað.

Meginfyrirvari minn við þetta mál snýst um þá frestun sem hér er lögð til á möguleikum grunnskólanemenda til að taka framhaldsskólaáfanga og að réttindi grunnskólanemenda samkvæmt 4. mgr. 26. gr. grunnskólalaganna verði virk frá og með skólaárinu 2012–2013. Það er orðið mjög brýnt að marka skýra stefnu um það sem við höfum kallað sveigjanleg skólastig. Það var að sjálfsögðu gert með samþykkt þessara laga um grunnskólana og raunar þeim lagapakka um leikskóla og framhaldsskóla sem fór í gegn á sínum tíma undir forustu þáverandi hæstv. menntamálaráðherra, hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Innan menntamálanefndar fáum við ítrekað ábendingar um óskýra stefnumörkun, að vísu að hluta til vegna hrunsins en líka kannski vegna þess að við höfum ekki markað okkur alveg nóga skýra stefnu um það hvað við ætlum að gera með þessi sveigjanlegu skólastig, minni framhaldsskóla, framhaldsskóladeildir sem hefur líka verið komið af stað og síðan samspilið við fjarnám og dreifnám. Það var hluti af þeirri umræðu sem fór fram innan nefndarinnar, hvert við viljum í raun stefna. Viljum við til dæmis að sveitarfélögin sem fara núna með leik- og grunnskólana yfirtaki allt nám sem tengist börnum? Við skilgreinum börn upp að 18 ára aldri. Mundi það þýða að sveitarfélögin tækju við núverandi framhaldsskólum eða ættu þau að fara að bjóða upp á framhaldsskólanám innan grunnskólanna þannig að þá stæðum við ekki frammi fyrir því úrlausnarefni sem við erum að reyna að koma til móts við hér?

Þá er líka spurning um þau sveitarfélög sem eru nú þegar með litla framhaldsskóla. Eiga þau þá að yfirtaka framhaldsskólann í heildina eða væri að einhverju leyti möguleiki á að auka samstarfið á milli þessara litlu framhaldsskóla? Þjónusta við nemendur í þessum minni skólum er að mörgu leyti takmarkaðri, getur verið persónulegri, betri að því leyti, en það er minna val, það eru færri námsmöguleikar, minna val á félögum. Ég tel að að einhverju leyti væri hægt að bæta úr því, sérstaklega hvað varðar úrvalið í námi með því að samþætta námsframboð með notkun tækninnar.

Ég veit að það er þegar hafin vinna innan menntamálaráðuneytisins um að horfa á þetta heildstætt og ég held að það sé mikilvægt að við fylgjumst mjög náið með þeirri vinnu og gerum alvöru úr því sem við höfum verið að ræða um, að búa til þennan aukna sveigjanleika, þessa samhæfingu, að við séum ekki svona föst í því fyrirkomulagi sem hefur þróast í gegnum árin og áratugina.

Það er líka sérstakt áhyggjuefni, eins og kemur fram í nefndarálitinu, að samfélagið tvígreiði í raun fyrir sömu einingarnar í ríflega 40% þeirra tilfella þar sem grunnskólanemendur hafa tekið framhaldsskólaáfanga. Þetta kemur síðan að mjög viðkvæmum punkti sem er sá að hérna erum við að bjóða bráðgerum og vel gefnum einstaklingum á grunnskólaaldri að taka framhaldsskólaáfanga. Þeir vilja síðan gjarnan sækja þá í bestu framhaldsskólunum, þeim sem koma best út í könnunum og öðru, og þeir skólar virðast mjög oft bjóða upp á bekkjakerfi en ekki áfangakerfi sem gerir það að verkum að þeir hafa þá neyðst til að tvítaka það nám sem var ekki hugsunin í upphafi. Hugsunin var að bjóða þeim upp á að flýta sér í námi.

Þetta er það sem fyrirvari minn snýr að. Ég tel mjög brýnt að vinnunni varðandi þetta verði hraðað. Hérna er talað um að starfshópurinn varðandi það sem við leggjum hér til skili af sér 31. mars 2012 og það er hluti af því, en eins og ég nefndi áðan þarf að samþætta við þá vinnu sem er þegar í gangi hjá menntamálaráðuneytinu um það hvert skuli stefna með minni framhaldsskóla, fjarnámið, dreifnámið og raunar uppbyggingu framhaldsskólakerfisins í heild. Það eru spennandi tímar fram undan hvað varðar þessi mál og þetta er að minnsta kosti ákveðin niðurstaða sem hægt er að lifa við. Við hefðum hins vegar viljað gera betur.