139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

grunnskólar.

747. mál
[15:04]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum í 2. umr. frumvarp til laga um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, með síðari breytingum. Ég er á þessu nefndaráliti ásamt öðrum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í menntamálanefnd, hv. þm. Írisi Róbertsdóttur, en við erum á nefndarálitinu með fyrirvara sem tekur eingöngu til ákvæðis til bráðabirgða, svo það sé sagt strax í upphafi.

Mig langar að fara aðeins yfir frumvarpið og þær tillögur sem hv. menntamálanefnd hefur gert á því. Þó svo að hv. formaður nefndarinnar, hv. þm. Skúli Helgason, hafi rakið ágætlega vinnu nefndarinnar og þær breytingar sem við lögðum til tel ég engu að síður ástæðu til að hnykkja á og fagna þeim breytingum sem gerðar eru á 1. gr. frumvarpsins sem varða fósturbörn.

Fósturbörn eru ekkert öðruvísi grunnskólabörn en venjuleg grunnskólabörn og eiga því að njóta þeirra réttinda sem þau nutu á lögheimili sínu í sínu gamla sveitarfélagi ef svo vill til að þau séu send frá lögheimili í sveitarfélagi í tímabundið fóstur í annað sveitarfélag. Það hefur hins vegar verið þannig í gegnum tíðina, og nú tala ég jafnt sem skólastjóri og fyrrverandi sveitarstjórnarmaður, að stóru sveitarfélögin hafa oftar en ekki verið treg til að greiða önnur gjöld en þau grunngjöld sem Samband íslenskra sveitarfélaga og þeir sem þar sitja hafa komið sér saman um að eigi að greiða. Flutningi barns milli skóla hefur síðan oftar en ekki fylgt ýmislegt annað sem fylgdi jafnvel aldrei því ágæta barni í grunnskólanum heima en kemur svo í ljós við þau umskipti sem verða í lífi barns við að vera tekið af heimili sínu, frá foreldrum sínum, og sett í fóstur. Slík umskipti geta umbylt hegðun og líðan einstaklinga og við því þarf viðtökusveitarfélagið að bregðast með einum eða öðrum hætti. Þá er ekki í lagi að gengið sé á rétt þessa barns til náms og því og hagsmunum þess jafnvel vikið til hliðar af því að sveitarfélög hafa ekki getað komið sér saman um hver eigi að greiða fyrir hvað í gegnum tíðina.

Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að við bætist nýr málsliður, að áður en barni er ráðstafað í fóstur muni barnaverndarnefnd — og síðan eins og nefndarálitið gerir ráð fyrir — ásamt fræðsluyfirvöldum í viðkomandi sveitarfélagi sem á að taka við meta með hvaða hætti viðtökusveitarfélagið og viðtökuskólinn getur veitt barninu þjónustu. Ég tel að það sé af hinu góða. Ég tel að þar ráði réttindi barnsins umfram kostnaðargreiningu og það hvaða liði sveitarfélag á að greiða fyrir í námsgöngu barnsins á nýjum stað.

Ég held að það sé líka til bóta að ekki verði los á grunnskólagöngu barna sem lenda í slíkum aðstæðum tímabundið og gert er ráð fyrir að sett verði á laggirnar ákveðin úrskurðarnefnd sem kveði upp úr um ágreiningsmál sem kunna að koma upp. Þær tvær breytingar sem hv. menntamálanefnd gerði á 1. gr. frumvarpsins eru líka mjög til bóta og nefndin tryggir það sem frumvarpinu og grunnskólalögunum var ætlað að tryggja, að styrkja réttindi grunnskólanemenda til náms og velferðar og aukins svigrúms í skólagöngu barna almennt. Ég held að við getum fagnað þeim breytingum sem menntamálanefnd kom sér saman um að gera og ég tek undir með hv. formanni nefndarinnar, Skúla Helgasyni, að það var sátt í menntamálanefndinni um þær breytingartillögur sem hér liggja fyrir.

Ég tel líka ástæðu til að fagna sérstaklega því sem lagt er til varðandi 2. gr. og 7. gr., að ekki verður hægt, eins og þessar greinar gera í raun ráð fyrir, að hægt verði að leita undanþágu frá því að skipa skólaráð og nemendaverndarráð þar sem fámenni er í sveitarfélögum. Ég fagna því að um það sé samkomulag í nefndinni að það verði ekki hægt heldur þurfi fámenn sveitarfélög og samfélög að leita annarra leiða en kveðið er á um í grunnskólalögum nú um skipun í skólaráð og nemendaverndarráð. Þessi ráð eru þáttur í því að auka velferð og réttindi nemendanna og þess vegna fagna ég því sérstaklega að sett sé inn að undanþágu megi veita til annars konar skipunar skólaráða og nemendaráða en að ekki sé heimild til að fella þessi ráð niður eins og hugmyndin var ef til vill þegar frumvarpið var lagt fram.

Það er líka ánægjuefni hvernig skólasöfnin koma inn vegna þess að við erum alltaf að sjá betur og betur þátt skólasafna í allri upplýsingaveitu til nemenda. Skólasöfn skipta miklu máli sem þekkingaveita og reyndar bókasöfn almennt þegar við hvetjum til sjálfstæðis, þegar við hvetjum til þess að nemendur afli sér upplýsinga hvort heldur er í bókum sem til eru á safninu eða á rafrænu formi. Skólasöfnin auka og efla sjálfstæði nemenda í vinnu. Þau hvetja nemendur oftar en ekki til upplýsingaleitar og eru brunnur að ákveðinni þekkingu sem ekki fæst einungis í kennslustund, verkefnum eða í samtölum kennara og nemenda. Það er ágætt að við tryggjum það og þá er það skólanna að útfæra með hvaða hætti þessi söfn verða virk í skólalífinu sjálfu.

Í 6. gr. er fjallað um skólabrag og er það að mínu mati beintengt við svokallað skólaráð, með hvaða hætti samfélagið sem stendur að skólanum hverju sinni vill hafa skólann, hvaða bragur á að vera í skólanum, hvaða áherslur eiga að ríkja jafnt um réttindi og skyldur nemenda sem og um réttindi og skyldur starfsmanna skólans, umgengnisreglur, trúnað, samskipti. Ég tel það af hinu góða að við höfum kjark til að binda það í lög. Ég vil hins vegar leggja á það áherslu eins og gert er í nefndarálitinu að eineltismál eru ekki einu ofbeldismálin sem eiga sér stað innan grunnskólans, af því að við fjöllum nú um grunnskólann einan og sér. Þar inni eru ýmis ofbeldismál af öðru tagi og þess vegna má ekki undir nokkrum kringumstæðum leggja ofuráherslu á eineltismál og gleyma öðrum ofbeldisþáttum. Ég legg áherslu á, eins og kemur fram í nefndarálitinu, að vissulega eru eineltismál vondur þáttur í öllu starfi, á öllum vígstöðvum, hvort heldur er í skólum eða á vinnustað en þar viðgengst því miður líka annars konar ofbeldi. Þegar við ölum á tortryggni í stað þess að reyna að leggja áherslu á samheldni köllum við oft fram þá þætti í mannlegu eðli sem oft er djúpt á en eru yfirleitt ekki af hinu góða.

Þá ætla ég í lokin að fjalla stuttlega um 8. gr. Ég fagna því að nefndin tók mið af því sem þeir sögðu sem fyrir nefndina komu fyrir hönd hinna sjálfstætt starfandi skóla og hér er lögð áhersla á að grunnskólinn er 10 bekkir eins og málin standa í dag. Því var hálfklént að ætla að setja inn í lögin að gera samning um sjálfstætt starfandi skóla og hafa tímabilið eingöngu til sjö ára. Sveitarfélögin gera samning við skólann. Það er þjónustusamningur. Honum er einungis hægt að rifta af hálfu samningsaðila ef einhver hefur brotið það sem fram kemur í þjónustusamningnum og ég held að það sé af hinu góða að setja það inn en tímalengdin verður að vera ákvörðun sveitarfélaganna og þeirra aðila sem vilja reka sjálfstætt starfandi skóla í sveitarfélagi sínu.

Að lokum, frú forseti, gerði ég ásamt hv. þm. Írisi Róbertsdóttur fyrirvara við ákvæði til bráðabirgða um það sem við höfum kosið að kalla sveigjanleg skólastig. Okkur hefur verið tíðrætt um samfellu í skólanámi, samfellu í námi frá 1. bekk í grunnskóla til loka framhaldsskólans. Oftar en ekki hafa menn rætt þessa samfellu í námi og talað um styttingu framhaldsskólans. Ég held að það fari betur að horfa á þessi skólastig saman og stytta nám til stúdentsprófs eða nám til prófs í einhverri iðngrein í heildina frá 1. bekk og þar til námi lýkur en ekki eingöngu að horfa til framhaldsskólans og stytta hann úr fjórum árum í þrjú heldur horfa á þetta sem samfellu. Þá koma hin sveigjanlegu skólaskil og fljótandi mörk á milli grunn- og framhaldsskóla um að gefa nemendum svigrúm. Ég legg áherslu á það, frú forseti, vegna þess að í þessum lögum og í umræðunni er oftar en ekki talað um bráðger börn á bók. Ég vil líka sjá að þeim nemendum sem eru bráðgerir á verklega þætti í skólastarfi séu ekki síður gefin tækifæri til að taka þá áfanga innan framhaldsskólans sem þeir eru færir um. Miðað við það sem við höfum rætt varðandi tillögur, áætlun og aðgerðir í þágu ungra atvinnulausra einstaklinga sem hafa oftar en ekki eingöngu grunnskólapróf, um að styðja þá í að fara aftur í framhaldsskóla og þá í einhvers konar starfsnám og bjóða upp á ýmislegt þar að lútandi, sem er af hinu góða, megum við ekki gleyma því að í grunnskólanum eru bráðger börn í ýmsum listgreinum sem ekki njóta þess sama og þeir sem eru bráðgerir á bókina. Þessu viðhorfi til náms þurfum við að breyta og við verðum að gæta okkar á því að tala ekki eingöngu um sveigjanleg skólastig á milli grunnskólans og framhaldsskólans, um nemendur í 9. og 10. bekk sem eru hæfir til að taka áfanga á öðru skólastigi, um þá nemendur sem eru bráðgerir á bókina, heldur líka um þá sem eru hæfileikaríkir á sviði lista og í ýmsum verklegum greinum. Undir þá þætti þurfum við að ýta. Það er fólk í slíkum greinum sem mun bera uppi framtíðina. Þótt bóknámið sé ætíð af hinu góða eru ýmsar tæknigreinar og verklegar greinar sem við þurfum að styðja við sem munu skapa auðæfi og arðsemi í samfélaginu til lengri tíma litið.

Við erum með fyrirvara við þetta ákvæði vegna þess að við hefðum kosið að það væri ekkert bráðabirgðaákvæði inni í frumvarpinu. Það er dapurlegt, frú forseti, að bráðabirgðaákvæðið er inni vegna þess að skólakerfið sjálft er svo bundið í viðjar að nemendur sem hafa kosið að taka framhaldseiningar oftar en ekki í bóklegum greinum fá þær sjaldnast metnar í bekkjarskólunum af því að kerfi bekkjarskólanna er svo niðurnjörvað að það getur ekki tekið mið af þörfum þeirra nemenda sem inn koma. Framhaldsskólinn hlýtur að þurfa að skoða með hvaða hætti nemendur eru metnir inn í skóla, að ekki sé lengur miðað við að fólk byrji í framhaldsskóla við 16 ára aldur og að 17 ára fólk eigi að hafa lokið 1. ári í framhaldsskóla, eða að 16 ára fólk eigi eingöngu að hafa lokið ákveðnum einingum í grunnskóla og engu öðru. Við hljótum að þurfa að horfa til hæfni nemenda hverju sinni á hvaða sviði sem er og þá verður framhaldsskólinn jafnt sem grunnskólinn að vera tilbúinn til að mæta þörfum nemenda og ekki síður að meta hæfni þeirra, hafi þeir lokið einingum í hvaða grein sem er og meta það inn í nám inn í framhaldsskóla.

Ég held að þetta sé miklu frekar vandamál framhaldsskólanna og þá bekkjarskólanna en að þetta sé vandamál nemenda eða einhverra annarra. Fljótandi skólaskil eru yfirleitt vandamál bekkjarskólanna en ekki áfangaskólanna og á því verðum við að taka með einhverjum hætti. Það gengur heldur ekki, eins og fram kom í ræðu þeirra hv. þm. Skúla Helgasonar og Eyglóar Harðardóttur, að við séum að marggreiða fyrir þreyttar einingar, eins og þær eru stundum nefndar, einingar sem eru staðnar, sem nemendur hafa lokið, þeir hafa uppfyllt það sem gerðar voru kröfur um og eru með bókstaf eða tölulega einkunn upp á það. Það er búið að greiða fyrir áfangann en af því að tilteknir skólar eru ekki tilbúnir að meta námið þarf að greiða aftur fyrir sama nemandann í sama fagi. Það er verkefni sem óskað er eftir að skipuð verði nefnd eða starfshópur um og fari yfir málið. Það er af hinu góða.

En ég ítreka, frú forseti, að flestar þær breytingar sem lagðar eru til eru af hinu góða og ég ítreka að það er ánægjulegt að taka þátt sem þingmaður í vinnu þar sem fagmennska ræður för en ekki pólitískir flokkadrættir. Þess vegna eru við hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins með á þessu frumvarpi en þó með fyrirvara um þessi fljótandi skólaskil.