139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

grunnskólar.

747. mál
[15:20]
Horfa

Frsm. menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta svigrúm sem mér er veitt. Það er rétt að ég hafði óskað eftir því að koma upp og bregðast við þeim sjónarmiðum sem komu fram í máli hv. þm. Eyglóar Harðardóttur og Ragnheiðar Ríkharðsdóttur. Ég tek heils hugar undir þau sjónarmið sem komu fram í ræðum beggja hv. þingmanna um mikilvægi þess að skoða skólakerfið okkar sem eina heild og að við séum ekki of bundin á þá klafa að horfa á grunnskólann sem einhvers konar eyland og framhaldsskólann sem annað eyland.

Vel kann að vera að kominn sé sá tími að við skoðum hvort næsta skref í þessum málum sé að huga að því að grunnskólinn og framhaldsskólinn verði á einni hendi eða framhaldsskólakerfið verði skilgreint með öðrum hætti. Ég er tilbúinn í þá umræðu. Það mikilvægasta sem mér finnst að við þurfum að velta fyrir okkur er: Hvaða breytingar getum við gert í menntakerfinu þannig að tryggt sé að sjónarhornið sé alltaf á nemandann og á þá þjónustu sem hann fær? Inn í þetta kemur m.a. það mismunandi vægi sem bóknámið og starfsnámið hefur fengið í kerfi okkar og birtist í því að mikill meiri hluti þeirra nemenda sem sækir nám í framhaldsskólum lærir fyrst og fremst á bókina en líka í því að þeir starfsnámsáfangar sem þó er boðið upp á eru margir hverjir því marki brenndir að vera skipulagðir með svipuðum hætti og bóknámið. Þetta eru jafnlangar brautir, fjögur ár í flestum tilvikum, sem ég held að ég geti fullyrt að sé ekki fullnægjandi viðbragð við þeirri staðreynd að nemendur eru mismunandi og þeir hafa mismunandi hæfileika og getu. Þeir nemendur hverra hæfileikar beinast ekki sérstaklega að bóknámi þurfa á því að halda að hæfileikar þeirra til að vinna með höndunum, hvort sem það er í list- eða verknámi, séu metnir í skipulagi námsins.

Ég held að við deilum því öll í nefndinni að við hefðum helst viljað að það fyrirkomulag sem lagt var upp með í frumvarpinu í ákvæði til bráðabirgða, að fresta því í reynd að framhaldsskólar fái metinn með fjárframlögum þann rétt sem skilgreindur er í lögunum um að grunnskólanemendur geti tekið framhaldsskólaáfanga og sá réttur sé í raun og veru tekinn úr sambandi um nokkurra ára skeið út af bágri fjárhagsstöðu.

Ég vil þó árétta að ég tel að nefndin sé að stíga afar mikilvægt skref með bráðabirgðaákvæðinu þannig að ég er ekki fyllilega sammála því sjónarmiði að betra væri hafa það ekki inni. Núverandi fyrirkomulag er í reynd með þeim hætti að mjög stór hluti þeirra nemenda sem, eins og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir kom inn á, stendur sína plikt, sækir framhaldsskólaáfanga sína og stendur þá með prýði, uppfyllir öll skilyrði sem lagt er upp með, mætir síðan því viðmóti í framhaldsskólunum að þeir segja, sérstaklega í höfuðborginni: Nei takk, við tökum ekki mark á þessum einingum. Þið verðið að fara aftur í gegnum sömu vinnu með tilheyrandi kostnaði.

Mér finnst við ekki geta með neinum hætti sætt okkur við eða viðurkennt slíkt fyrirkomulag. Þess vegna er það afar mikilvæg stefnumótandi yfirlýsing nefndarinnar að strax verði tekist á við þetta vandamál og vonandi á þessu ári, í síðasta lagi á fyrstu mánuðum næsta árs, verði tekið fyrir þennan leka og þessi tvígreiðsla tekin út. Ekki síður er mikilvægt að við tryggjum að rétturinn sem er í lögunum og er mjög mikilvægur sé í orði og á borði.

Að öðru leyti er ég sammála því að við í menntamálanefnd þurfum að standa þessa vakt áfram, bæði í málefnum fósturbarna og um sveigjanleg skólaskil og tryggja að þau ákvæði sem við leggjum til að komi inn sem breytingartillögur við frumvarpið skili sér í reynd í bættri þjónustu við grunnskólanemendur í landinu.