139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

embætti sérstaks saksóknara.

754. mál
[15:45]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það stendur þannig á í þinginu að dálítið erfitt er að vera á tveimur stöðum í einu, bæði í þessum ræðustól og á sama tíma á fundi í hv. viðskiptanefnd. Þannig var háttað með stöðu mína og ég biðst afsökunar.

Ég vildi aðeins hafa örfá orð um það mál, virðulegi forseti, sem hv. þm. Róbert Marshall, formaður allsherjarnefndar, fór yfir. Ég undirritaði það nefndarálit sem hann gerði grein fyrir en þar kemur reyndar ekki fram fyrirvari minn. Ég hygg að ég hafi gert fyrirvara við samþykki mitt við nefndarálitið, en látum það liggja á milli hluta og gerum ekki svo mikið úr því formsatriði vegna þess að ég hef frá því að málið kom fram verið hlynntur meginefni frumvarpsins. Ég lagði mikla áherslu á að nefndin mundi við yfirferð málsins huga vandlega að stöðu þeirra starfsmanna sem frumvarpið varðar. Þar vegast á réttarstaða manna sem annaðhvort eru skipaðir eða ráðnir. Þetta eru vinnuréttarleg sjónarmið sem mikilvægt er að séu á hreinu þannig að þeir lögreglumenn sem færast á milli þessara embætta haldi þeim réttindum sem þeir hafa áunnið sér. Meiri hluti nefndarinnar taldi að með þeim breytingum og þeim áréttingum sem hér koma fram sé girt fyrir þá hættu að þeir starfsmenn lögreglunnar, þeir lögreglumenn sem um ræðir missi í einhverju af þeim réttindum sem þeir hafa áunnið sér í öðrum störfum á öðrum vettvangi innan lögreglunnar. Að þessu laut fyrirvari minn fyrst og fremst. Ég vildi bara árétta það að skilningur minn væri sá að þau réttindi yrðu tryggð og lagði áherslu á það.

Annað atriði sem ég taldi mjög mikilvægt að kæmu fram í nefndarálitinu og vikið yrði að lúta að lagaskilunum. Í nefndarálitinu á bls. 4 segir að fyrir nefndina hafi komið fram „athugasemdir um að nauðsynlegt væri að kveða skýrt á um lagaskil, þ.e. varðandi ákæruvald í þeim málum sem ríkislögreglustjóri hefur ákært í og eru til meðferðar fyrir dómstólum. Í 1. gr. frumvarpsins er eingöngu vikið að yfirtöku á rannsóknarskyldu embættis sérstaks saksóknara. Nefndin fellst á þessi sjónarmið og telur nauðsynlegt að kveða skýrt á um að við gildistöku laganna flytjist ákæruvald og þar með sókn þeirra mála sem þegar sæta ákærumeðferð fyrir dómstólum af hálfu ríkislögreglustjóra frá embætti ríkislögreglustjóra til embættis sérstaks saksóknara.“

Það er gríðarlega mikilvægt að þetta komi fram vegna þess að það getur auðvitað valdið miklum réttarspjöllum ef einhvers staðar við miðja vegu í málsmeðferð eða ákærumeðferð, annaðhvort á rannsóknarstigi eða fyrir dómstólum, að það verði — hvað eigum við að segja, aðilaskipti sóknarmegin í málinu. Slíkt getur, án þess að frá því sé gengið með sómasamlegum hætti, leitt til frávísunar mála.

Eins og við vitum hefur efnahagsbrotadeildin og embætti saksóknara haft til meðferðar stór og mikilvæg mál sem snúa að efnahagshruninu og lúta að meintum efnahagsbrotum. Það hefði verið ófært ef sú hætta hefði skapast að þeir þættir málsins væru óljósir og þeir kynnu að eyðileggja rannsókn eða meðferð þessara mála fyrir dómstólum. Ég fæ ekki betur séð en úr þessu hafi verið leyst við meðferð málsins. Ég hef skynjað það þannig að langflestir þeir aðilar sem hafa komið fyrir nefndina og látið uppi hug sinn gagnvart frumvarpinu séu almennt þeirrar skoðunar að þessi breyting sé skynsamleg og hún sé framfaraskref á þessu sviði. Ég tek undir það og tel að með þessu sé stigið skynsamlegt skref. Þess vegna undirrita ég nefndarálitið og styð málið fyrir mitt leyti.