139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[16:40]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hér er handagangur í öskjunni og mörg spjót á lofti í senn. Hér er í 3. gr. verið að koma til móts við kröfur atvinnulífsins um frekari ívilnanir í skattamálum. Breytingartillögur nefndarinnar lúta að því að ganga þar lengra en ráðgert var með frumvarpinu. Í 2., 4. og 5. gr. var verið að mæta atvinnulífinu um skattlagningu á arði út úr hlutafélögum, einkum þar sem ætlað var að koma í veg fyrir að menn tækju sér laun í gegnum arðgreiðslur. Þar er gengið enn lengra til að koma til móts við óskir atvinnulífsins en var í frumvarpinu. Hér er sömuleiðis verið að tryggja heimildir skattgreiðenda til að áfrýja ákvörðunum ríkisskattstjóra áfram og ýmsar aðrar þarfar úrbætur á þessu góða máli sem byggir á niðurstöðu kjarasamninganna og er sá mikilvægi rammi sem við þurfum að setja um efnahagsstarfsemina hér næstu missirin.