139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[16:47]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þegar ákvæðum var breytt í þessum efnum fyrir áramótin var gengið langt að okkar dómi í fjármálaráðuneytinu og ég studdi ekki þá breytingu og hafði uppi þau varnaðarorð að torsótt kynni að reynast að fá það viðurkennt og samþykkt að þetta væri innan ramma þess sem íslenskum stjórnvöldum væri heimilt að gera samkvæmt Evrópureglum. En hér er mikill hugur í mörgum að gera allt sem hægt er, og kannski rúmlega það sem hægt er, til að stuðla að uppbyggingu gagnavera. Þann áhuga skil ég vel og styð hann en kapp er best með forsjá.

Nú hefur ESA tilkynnt að hafin sé formleg rannsókn á þessum málum og hefur óskað eftir því við íslensk stjórnvöld að fresta gildistöku laganna á meðan rannsókninni stendur, að minnsta kosti fram til haustsins. Við í fjármálaráðuneytinu sem förum með þessi mál og höfum rætt um samskipti við ESA sem tengjast lögmætri eða ólögmætri ríkisaðstoð höfum talið hyggilegt að hafa griðasamkomulag á meðan rannsókninni stæði (Forseti hringir.) og annað þjónar litlum tilgangi. Mér er engin leið að mæla með því að þessi breyting sé gerð á frumvarpinu, væri skapi næst að greiða atkvæði gegn henni (Forseti hringir.) en skal sitja hjá fyrir friðar og vináttu sakir.