139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[16:50]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra vinarþelið en sá annmarki er á tilmælum ESA að lagaákvæðið hefur þegar tekið gildi og gilt þegar í hálfan annan mánuð. Við í þinginu gáfum svigrúm í rúmlega fjóra mánuði áður en ákvæðið tæki gildi og áttum von á því að sá tími mundi duga eftirlitsstofnuninni til að fara yfir málið. Þess er út af fyrir sig skemmst að minnast að henni nægði einn mánuður til að svara því erindi sem hún svaraði í dag. Einnig er sá annmarki á að hún hefur ekki sent Alþingi Íslendinga neitt formlegt um þessi efni og þess vegna er erfitt að bregðast við.