139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

grunnskólar.

747. mál
[16:59]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um frumvarp til laga um breytingar á lögum um grunnskóla. Ég vil geta þess að hv. menntamálanefnd hefur farið vel yfir frumvarpið og unnið sem einn maður þvert á flokka að því að bæta það. Nefndin hefur haft það að leiðarljósi að tryggja sem kostur er rétt nemenda og hafa tveir hópar sérstaklega verið þar undir, annars vegar fósturbörn sem eiga samkvæmt lögunum skýlausan rétt á skólagöngu í lögheimilissveitarfélagi fósturforeldra og hins vegar þeir bráðgeru grunnskólanemendur sem hafa viljað taka áfanga í framhaldsskólunum.

Staðreyndin er sú að í báðum tilvikum hefur framkvæmdin verið með þeim hætti að réttur hefur verið brotinn á þessum hópum. Hv. menntamálanefnd leggur til mikilvægar breytingar sem eiga að koma í veg fyrir slíkar brotalamir. Nefndin leggur til átta breytingartillögur sem eiga að tryggja enn frekar en gert hefur verið rétt nemenda í þessu skyni og ég hvet þingheim til að taka þeim tillögum vel.