139. löggjafarþing — 148. fundur,  10. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[17:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég er á móti því að veita Vegagerðinni eða einkahlutafélögum í gegnum Vegagerðina heimild til að taka hluti eða jarðir eignarnámi. Það er mjög einfalt. Ég er líka á móti því að ríkisvaldið sé í síauknum mæli farið að fela ákveðinn stofnkostnað og uppbyggingu í gegnum hlutafélög og láta það ekki koma fram sem skuldbindingu ríkissjóðs og plata þar með skattgreiðendur framtíðarinnar, börnin okkar, með því að sýna ekki í fjármálum ríkisins þær skuldbindingar sem menn hafa tekið á sig. Ég segi nei.