139. löggjafarþing — 149. fundur,  10. júní 2011.

álit Eftirlitsstofnunar EFTA um Icesave.

[17:28]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil einnig þakka hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir þá yfirlýsingu sem hann flutti þingheimi í tilefni af því að Eftirlitsstofnun EFTA greindi frá rökstuddu áliti sínu og sendi það íslenskum stjórnvöldum í morgun.

Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra kom á fund utanríkismálanefndar í dag og gerði grein fyrir meginatriðum í rökstuddu áliti ESA um Icesave-málið, hvaða sjónarmið hefðu komið þar fram, og nefndarmenn skiptust á skoðunum um stöðuna og spurðu spurninga. Ég vil láta það koma fram hér að á fundi utanríkismálanefndar var almennt mjög góður samhljómur um að það væri mikilvægt fyrir okkur að standa saman að hverju skrefi í þessu máli í framhaldinu. Það var gert þegar svarbréf íslenskra stjórnvalda var undirbúið og síðan sent í byrjun maí sl. Það kom einnig fram á fundi nefndarinnar að það væri mikilvægt að við vönduðum viðbrögðin, tækjum okkur þann tíma sem við þyrftum til að íhuga þau og ígrunda í hvívetna. Jafnframt kom fram sú ósk sem efnahags- og viðskiptaráðherra féllst góðfúslega á að svör ESA yrðu greind mjög nákvæmlega, borin saman við þær röksemdir sem íslensk stjórnvöld hafa haft uppi í þessu máli og síðan unnin greinargerð um það þannig að við fengjum að sjá hvað það er nákvæmlega í okkar röksemdum sem Eftirlitsstofnunin ESA gerir athugasemdir við eða hafnar. Því er ekki að leyna að öllum meginröksemdum Íslands í bréfinu frá 2. maí sl. er hafnað af hálfu Eftirlitsstofnunarinnar ESA. Eins og hér hefur komið fram hjá öðrum er þetta að sjálfsögðu alvarleg staða, niðurstaða sem ef til vill kemur ekki á óvart miðað við alla forsögu málsins en hún er alvarleg og þess vegna þurfum við að íhuga vel hvert skref og viðbrögð af okkar hálfu.

Nú kann vel að vera að bæði af hálfu Breta og Hollendinga og eins innan Evrópusambandsins fari fram einhver umræða um það að hve miklu leyti það kann að þjóna hagsmunum þessara aðila að málið endi fyrir dómstólum. Það er þá umræða sem þeir taka af sinni hálfu og við munum væntanlega fylgjast með ef hún fer fram, en ég er reyndar sannfærður um að endi málið fyrir dómstólum, eins og flest bendir til, getum við gengið út frá því að það sé að sjálfsögðu óvilhallur dómstóll sem tekur það fyrir.

Ég legg áherslu á af minni hálfu að íslensk stjórnvöld hafi náið og gott samráð við Alþingi í þessu máli. Og ég vænti þess að efnahags- og viðskiptaráðherra muni á næstu vikum koma til fundar við utanríkismálanefnd að nýju og greina þá frá þeirri vinnu sem fer fram á vegum ráðuneytisins við að greina svar ESA og bera saman við okkar röksemdir í upphafi. Ég treysti því að við fáum að fylgjast vel með og vonandi getum við lagt eitthvað gott til málsins í framhaldinu. Ég tek undir það sem hér er sagt, það er að sjálfsögðu mikilvægt að Alþingi, allir stjórnmálaflokkar, komi að þessu máli og standi saman í þeirri málsvörn sem við munum væntanlega þurfa að hafa uppi á næstu mánuðum og kannski missirum.