139. löggjafarþing — 149. fundur,  10. júní 2011.

fjármálafyrirtæki.

783. mál
[20:12]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við erum enn að draga lærdóm af reynslunni í kjölfar hrunsins. Slit fjármálafyrirtækja hafa reynst mun umfangsmeiri og flóknari en annarra þrotabúa og vakið tortryggni og deilur.

Hér er verið að breyta XII. kafla um slit fjármálafyrirtækja, m.a. er gerð ríkari krafa til upplýsingagjafar slitastjórna og greitt er fyrir að slitum verði lokið með nauðasamningi. Hér er líka verið að veita Fjármálaeftirlitinu heimildir til að hafa eftirlit með störfum slitastjórna og skilanefnda og gera kröfur um að starfsemi fjármálafyrirtækja í slitum falli að góðum viðskiptavenjum og að fulltrúar í skilanefndum, bráðabirgðastjórnum og slitastjórnum uppfylli sömu hæfisskilyrði og gerð eru til stjórnarmanna í öðrum fjármálafyrirtækjum. Þetta er þarft verk og brýnt og gott að það verði að lögum.