139. löggjafarþing — 149. fundur,  10. júní 2011.

fjármálafyrirtæki.

783. mál
[20:13]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það var bara síðast í gær sem það staðfestist í nýrri skýrslu Samkeppniseftirlitsins að það er tvíþættur vandi sem við er að eiga í íslensku efnahagslífi í kjölfar hrunsins, þ.e. eigendavandi og umboðsvandi. Við höfum fjármálafyrirtæki sem ekki heyra skýrt til einhverjum eigendum og við höfum stjórnir eða skilanefndir sem eru að taka ákvarðanir í óljósu umboði. Sama á við um slitastjórnir sem fara með hagsmuni þrotabúa.

Með þessu frumvarpi reynum við að koma skikk á þessa umgjörð, tryggja að allir taki ákvarðanir á ábyrgum grunni með hagsmuni eigenda í huga. Við flýtum fyrir því að lokið verði við það ferli sem hófst með því að skilanefndir tóku yfir bú hinna föllnu banka og greiðum fyrir því að nauðsynleg hagræðing og endurskipulagning eigi sér stað í íslensku fjármálakerfi þannig að við fáum kraftmeira efnahagslíf að launum.