139. löggjafarþing — 149. fundur,  10. júní 2011.

farþegagjald og gistináttagjald.

359. mál
[20:50]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þingskjali því sem lagt hefur verið fram og þeim breytingartillögum sem því fylgja. Hér er á ferðinni frumvarp hæstv. ríkisstjórnar um álagningu farþega- og gistináttagjalds en fyrirhugað var að tekjur af því gjaldi skyldu renna til uppbyggingar í þjóðgörðum og síðan til framkvæmda á fjölsóttum ferðamannastöðum og hefur sérstakt mál verið til umfjöllunar í hv. iðnaðarnefnd sem lýtur að ferðamannastöðunum sem er til umfjöllunar næst á dagskránni. Var gert ráð fyrir að 60% teknanna rynnu til þess en 40% til framkvæmda í þjóðgörðum — og ég vil undirstrika það við 2. umr. að sá hluti sem ætlaður var þjóðgörðunum var ætlaður til framkvæmda í þjóðgörðum en ekki til hins almenna rekstrar sem þar er.

Gert var ráð fyrir því að tekjur af farþega- og gistináttagjaldinu gætu numið 400 millj. kr. en skemmst er frá því að segja að við rannsókn efnahags- og skattanefndar á frumvarpinu hefur komið í ljós að fyrirætlanir um upptöku farþegagjalds standast að líkindum ekki þær kröfur sem hin kunna Eftirlitsstofnun ESA gerir um fyrirkomulag slíkrar gjaldtöku. Sömuleiðis eru áhöld um hvort það samræmist skuldbindingum okkar samkvæmt Chicago-samningnum. Það er því tillaga nefndarinnar að fallið verði frá fyrirætlunum um álagningu farþegagjalds á þá sem nýta flug, hvort sem er innan lands eða milli landa. Þar með er fallið frá um það bil helmingnum af þeirri tekjuöflun sem hér var ráðgerð og nauðsynlegt fyrir ríkisstjórnina að taka til frekari skoðunar hvernig ráðast megi í aðra tekjuöflun með öðrum hætti til að vinna upp það tekjutap svo að setja megi sömu fjárhæðir til uppbyggingar bæði í þjóðgörðum og á ferðamannastöðum á náttúruperlunum okkar sem eru mikilvægur liður í ferðaþjónustunni. Þær sæta vaxandi ágangi og kalla alveg ótvírætt á það að við setjum fjármuni til að standa þannig að allri umgjörð að okkur sé sómi að og sé áfram það aðdráttarafl fyrir ferðamenn sem það hefur verið og undirstaða í okkar öflugu og vaxandi ferðaþjónustu.

Nefndin gerir jafnframt tillögur um nokkrar breytingar á gistináttagjaldinu sem við kjósum að nefna gistináttaskatt. Þær felast fyrst og fremst í því að einfalda framkvæmd hans. Þannig er gert ráð fyrir því, eftir breytingartillögum nefndarinnar, að öll gisting verði undir þannig að tjaldsvæði og hvers kyns gisting falli undir gildissvið gjaldsins þannig að þetta sé sem almennastur og undanþágulausasti skattur sem tekinn er.

Í öðru lagi að hann sé tekinn af hverri gistieiningu en ekki af hverjum einstaklingi. Það er bæði til einföldunar því að almennt eru herbergi í hótelgistingu ekki leigð hverjum einstaklingi og því auðveldara í framkvæmd að leggja gjald á hverja gistieiningu eins og gert er ráð fyrir samkvæmt tillögum nefndarinnar auk þess sem með því er þess gætt að leggja ekki meira á fjölskyldufólk en annað fólk. Með því leggjast ekki sérstök gjöld á börn þó að þau séu með fjölskyldu í gistingu.

Sömuleiðis er gert ráð fyrir því að aðeins sé um að ræða eitt gjald, 100 kr. og að það falli undir virðisaukaskattstofn en það falli undir þann skattstofn sem er undirliggjandi, sem er gistingin sjálf, en hann er í lægra þrepi virðisaukaskattsins og ber aðeins 7% virðisaukaskatt. Það er sömuleiðis til einföldunar fyrir þá sem þurfa að framkvæma þessa skattheimtu að þeir séu að innheimta sömu virðisaukaskattsprósentu á gistináttaskattinn eins og af gistingunni sjálfri en ekki aðra og hærri prósentu sem flækja mundi framkvæmdina.

Það er von mín og vissa að þessar breytingar á gistináttaskattinum munu einfalda alla framkvæmd hans og það er almennt ákjósanlegt ef ekki eru sérstök rök fyrir því að flækja skattareglurnar að þær séu sem allra einfaldastar, almennastar og skýrastar. Það er von mín að þær séu það með þessum frágangi. Eftir stendur, eins og ég gat um áður, að ekki verður af farþegagjaldinu og þar með þurfa menn ekki að hafa þær áhyggjur sem fram komu heldur í umsögnum af því að þar með værum við að hækka þröskuldinn fyrir komu ferðamanna til landsins því að ýmsir umsagnaraðilar bentu á að það væri kannski ekki alls kostar skynsamlegt að taka gjöldin vegna náttúrustöðvanna okkar af ferðamönnum þegar þeir væru að kaupa miðann til landsins því að það yki kostnaðinn við komu til landsins og mundi þá draga úr straumi ferðamanna hingað og væri eðlilegra að tengja það betur því þegar menn eru að skoða þessa fjölsóttu ferðamannastaði og þjóðgarðana okkar.

Ég held einnig, og það er mitt persónulega sjónarmið í málinu og ekki tillögur meiri hlutans með neinum hætti, að óhjákvæmilegt sé að við ræðum jafnframt hvort ekki sé eðlilegt að á fjölsóttum ferðamannastöðum, þar sem hundruð þúsunda manna koma á hverju ári og kalla á að þar sé ráðist í ýmsar framkvæmdir og ýmsu viðhaldi sinnt og mönnun og margvíslegir aðrir þættir, sem við þurfum á að halda til að sómi sé að — hvort ekki sé eðlilegt að menn greiði fyrir slíkt eðlilegt gjald yfir háannatímann, ferðamannatímann á sumrin til að standa straum af þeim kostnaði sem er óhjákvæmilegur. Við horfumst í augu við að ríkissjóður hefur átt í miklum erfiðleikum undanfarin missiri og það er erfitt að forsvara það að hækka skattheimtu á almenning í landinu sem er í litlum færum fyrir, margir, um fjárhagsstöðu sína til að kosta upp á framkvæmdir við þessa þætti sem svo sjálfsagt er og eðlilegt að þeir sem njóta, ferðamennirnir, hvort heldur er innlendir eða erlendir, greiði sjálfir fyrir.