139. löggjafarþing — 150. fundur,  10. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, strandveiði, aflamark, samstarf, tekjur af veiðigjaldi og tímabundin ákvæði. Það er mál 826 á þskj. 1761.

Nefndin hefur fjallað um málið á ný og fengið á sinn fund Jóhann Guðmundsson frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, Stefán Friðriksson og Siggeir Stefánsson frá Ísfélagi Vestmannaeyja hf., Gunnþór Ingvason frá Síldarvinnslunni hf., Pétur H. Pálsson frá Vísi hf., Eirík Tómasson frá Þorbirni hf., Róbert Ragnarsson frá Grindavíkurbæ, Arthur Bogason og Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda og Adolf Guðmundsson og Friðrik J. Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna. Þá átti nefndin símafundi með Þórólfi Gíslasyni frá Fisk seafood hf. og Þorsteini Má Baldvinssyni frá Samherja hf.

Í máli gesta á fundum nefndarinnar komu fram ýmis sjónarmið sem meiri hlutinn íhugaði og tók til sérstakrar skoðunar. Ákvað 1. minni hluti í framhaldinu að draga til baka þegar fram lagðar tillögur sínar til breytinga á frumvarpinu, leggja sumar þeirra fram á ný breyttar en aðrar óbreyttar. Þá bætir 1. minni hluti nýjum tillögum við. Gerir 1. minni hluti grein fyrir þeim sjónarmiðum sem til grundvallar lágu í áliti þessu.

Minni fiskiskip. Sú gagnrýni kom fram á fundum nefndarinnar að hætta væri á að ákvæði a-liðar 1. gr. frumvarpsins kynnu að hvetja eigendur lítilla fiskiskipa til að sækja strandveiðar í auknum mæli. Bent var á að fjárveitingar til Landhelgisgæslu Íslands hafi verið skertar á fjárlögum undanfarin ár og ekki væri útlit fyrir að breytingar yrðu til batnaðar í bráð. Þá var bent á þá hættu sem kynni að skapast ef eigendur smærri fiskiskipa freistuðust til þess að setja aflmiklar vélar í skip sín í því skyni að auka veiðiafköst. Að lokum kom fram að verulega erfitt kynni að reynast að ganga almennilega frá afla í svo litlum skipum sem aftur kæmi niður á aflameðferð og aflaverðmæti.

Í ljósi framangreinds leggur 1. minni hluti til að a-liður 1. gr. frumvarpsins verði felldur brott.

Frístundaveiðar ferðaþjónustuaðila. Ákvæði til bráðabirgða V í lögum nr. 22/2010, um breytingu á gildandi fiskveiðistjórnarlögum, kveður á um að á tveimur fiskveiðiárum, 2009/2010 og 2010/2011, skuli með sérstakri úthlutun allt að 200 lestir af óslægðum botnfiski boðnar til leigu þeim sem hafa leyfi til frístundaveiða, samanber 2. tölulið 4. mgr. 6. gr. laganna.

Á fundum nefndarinnar kom fram að stórir ferðaþjónustubátar sem bjóða farþegum að stunda sjóstangveiði með fjölda stanga hafa helst notið góðs af ákvæðinu. Miðað hefur verið við ákveðið meðalverð í viðskiptum með aflamark og hafa útgerðirnar þurft að greiða það verð fyrir aflann. Reynsla af ákvæðinu virðist hafa verið góð fram að þessu og virtust menn almennt sammála um gildi þess. Er það mat 1. minni hluta að þörf fyrir ákvæðið sé mikil enda skapar það ákveðið rekstraröryggi í útgerð ferðaþjónustubáta.

Með hliðsjón af framangreindu leggur 1. minni hluti til að við frumvarpið verði bætt nýrri grein sama efnis og framangreint bráðabirgðaákvæði og efni þess þannig fest í sessi. Þá leggur 1. minni hluti til að heimilt ráðstöfunarmagn ráðherra verði aukið í 300 lestir af óslægðum botnfiski.

Tilfærsla aflaheimilda. Í 2. gr. frumvarpsins er lögð til ákveðin aðferð til að jafna milli tegunda framlag útgerða í svokallaða samfélagspotta. Fram hefur komið gagnrýni á það fyrirkomulag sem þar er lagt til þar sem miðað er við að framlag útgerða geti eingöngu orðið í fjórum tilteknum tegundum, þ.e. þorski, ýsu, ufsa og steinbít, þar sem ljóst sé að það geti komið ójafnt niður á botnfiskveiðum útgerða þar sem botnfiskaflamark er tiltölulega lítill hluti af heildarheimildum viðkomandi útgerða.

Í því skyni að koma til móts við framangreinda gagnrýni leggur 1. minni hluti til þá breytingu að allar útgerðir leggi fram að hámarki 5,3% af aflamagni í öllum tegundum fyrir úthlutun heildarafla að teknu tilliti til c-liðar 7. gr. frumvarpsins. Eftir að ráðstafað hefur verið í potta því sem kemur inn af þorski, ýsu, ufsa og steinbít verður aflamagni í öðrum tegundum skipt í þessar tegundir eins og mögulegt er. Það mun fara fram á sérstökum skiptimarkaði sem eftir atvikum verður settur á laggirnar af Fiskistofu og/eða af samtökum í útgerð. Á hverju ári er mögulegt að um of- eða vanáætlun kunni að vera að ræða í magni vegna þessa enda er mjög erfitt að áætla nákvæmlega hvað út úr skiptum komi. Hér er gert ráð fyrir að við því verði brugðist með geymslu milli ára eða aukningu á næsta ári komi til vöntunar.

Þá kom það sjónarmið fram á fundi nefndarinnar að fyrirkomulag 2. gr. kynni að koma hart niður á þeim útgerðarfyrirtækjum sem hafa yfir að ráða miklum aflaheimildum í uppsjávartegundum og hafa sérhæft sig í veiðum og vinnslu slíks afla. Til að bregðast við þessum sjónarmiðum leggur 1. minni hluti til að bætt verði við frumvarpið ákvæði til bráðabirgða sem feli í sér að frádráttarhlutfall 2. gr. frumvarpsins verði virkt í áföngum. Þannig leggur 1. minni hluti til að það taki gildi að 1/3 hluta á næsta fiskveiðiári, 2/3 hlutum fiskveiðiárið 2012/2013 en að fullu næsta fiskveiðiár þar á eftir. Á sama tíma komi frádráttarliðir samkvæmt gildandi ákvæði 8. gr. laganna til frádráttar þar sem frádráttarhlutfalli 2. gr. sleppir.

Byggðakvóti. 3. gr. frumvarpsins var gagnrýnd þar sem fyrirkomulag hennar kynni að þurfa meiri umræðu við. Þá var bent á að í álitum, bréfum og skýrslum umboðsmanns Alþingis hafi komið fram ábendingar þess efnis að í sumum tilvikum kunni sveitarstjórnum að reynast erfitt að fást við úthlutanir byggðakvóta, m.a. vegna fámennis og mikilla innbyrðis tengsla íbúa og sveitarstjórnarmanna. Á fundum nefndarinnar kom þó fram að greinin fæli í sér nýjung sem ætlað væri að einfalda framkvæmd byggðaívilnunar sem hefði lítið með úthlutun byggðakvóta á árunum 2004–2007 að gera. Álit 1. minni hluta er að fyrirkomulag greinarinnar þurfi nánari skoðunar við og leggur hann því til að ákvæðið falli brott.

Tegundatilfærslur, lækkun viðmiða hámarksumframafla. Fyrsti minni hluti leggur til að viðmið um hámarksumframafla í hverri tegund samkvæmt 4. gr. frumvarpsins verði lækkað úr 2% af heildarverðmætum botnfiskaflans í 1,5%. Tilgangur breytingarinnar er að stemma stigu við ofnotkun á tegundatilfærslum með beinum veiðum enda hafa þær valdið töluverðri ofveiði umfram ákveðið heildaraflamark vissra tegunda í gegnum tíðina. Telur 1. minni hluti að með þessari takmörkun verði dregið úr almennri virkni tegundatilfærsla sem meðaflaaðgerðar.

Hlutfallstala veiðigjalds. Í 5. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að hækka viðmið vegna útreiknings á veiðigjaldi úr 9,5% af EBITDA (afkomu áður en tekið er tillit til vaxtagreiðslna og vaxtatekna, skattgreiðslna og afskrifta) útgerðarfyrirtækja. Á fundum nefndarinnar voru þau rök færð fyrir hækkuninni að framlegð útgerðarfyrirtækja væri góð og þau ættu vel að ráða við hana og teldist hækkunin hófleg í því samhengi. Á móti var bent á að mörg íslensk útgerðarfyrirtæki eru nokkuð skuldsett og þau ráði því misvel við slíkar hækkanir. Af þeim sökum kynni hækkun að skerða samkeppnishæfni ákveðinna hópa fyrirtækja á meðan áhrif á slíka hæfni annarra yrðu hverfandi.

Í ljósi framangreinds leggur 1. minni hluti til að viðmið til útreiknings veiðigjalds samkvæmt 5. gr. frumvarpsins lækki í 13,3%.

Ráðstöfun veiðigjalds. Í 6. gr. frumvarpsins er kveðið á um ráðstöfun tekna af veiðigjaldi. Kveður greinin á um að slíkum tekjum skuli annars vegar ráðstafað í ríkissjóð en hins vegar skuli þær renna til tilgreindra landshluta eftir nánar tilgreindum aðferðum. Þeim hluta sem renna á til landshlutanna er skipt í tvennt og m.a. gert ráð fyrir mismunandi skiptingu eftir landshlutum.

Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins kom fram sú gagnrýni á fyrirkomulag frumvarpsgreinarinnar að hún kynni hvað fjárveitingavald Alþingis varðar að fela í sér mismunun við úthlutun fjárframlaga til einstakra hluta landsins. Taldi skrifstofan slíkt fyrirkomulag geta falið í sér hættu á að brotið yrði gegn 65. gr. stjórnarskrár þar sem íbúar einstakra landshluta kynnu að verða öðruvísi settir en aðrir þegar kæmi að úthlutun fjármuna.

Fyrsti minni hluti telur að sá vafi sem skapaður hefur verið um fyrirkomulag 6. gr. frumvarpsins sé þess eðlis að ekki verði hjá því komist að taka greinina til endurskoðunar. Felur tillaga hans í sér að Alþingi gert skylt að ákveða ráðstöfun ákveðins hlutfalls tekna af veiðigjaldi til sjávarbyggða á grundvelli fjárstjórnarvalds við samþykkt fjárlaga 2012. Vekur 1. minni hluti sérstaka athygli á því að tillaga hans innifelur þá breytingu að ráðstöfun slíkra tekna verður til sjávarbyggða en ekki einstakra sveitarfélaga. Er það mat nefndarinnar að með því móti verði hamlað gegn því að ráðstöfun gjaldsins mismuni landsmönnum eftir búsetu.

Meðafli við makrílveiðar. Í a-lið 7. gr. frumvarpsins er ráðgert að ráðherra fái til ráðstöfunar 2.000 lestir af sumargotssíld þar sem síld er óhjákvæmilegur meðafli við makrílveiðar. Á fundum nefndarinnar kom fram að þau fiskiskip sem haldið hafa til veiða á makríl án þess að hafa yfir aflaheimildum í síld að ráða hafi óhjákvæmilega orðið að greiða sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Athygli nefndarinnar var vakin á því að við slíkar aðstæður skapast verulegur hvati fyrir útgerðarmenn til þess að landa ekki síld sem meðafla heldur skila henni á ný í hafið.

Fyrsti minni hluti telur verulega óheppilegt að stjórnkerfi fiskveiða innihaldi hvata til brottkasts sjávarafla. Því fellst hann á þá leið sem sett er fram í frumvarpinu og leggur 1. minni hluti til að ráðstöfunarmagn síldar verði aukið og sú aukning komi úr stofni norsk-íslenskrar síldar.

Tilfærsla löngu og keilu. B-lið 7. gr. frumvarpsins er ætlað að mæta þörf fyrir aflamark í löngu og keilu sem veiðast sem meðafli við þorsk- og ýsuveiðar. Er markmið hans að draga úr hættu á brottkasti vegna skorts á aflamarki í framangreindum tegundum.

Á fundum nefndarinnar kom fram að erfitt reynist að stunda veiðar á ýsu og þorski þannig að aðgreining sé gerð á milli þeirra annars vegar og keilu og löngu hins vegar og því væri nauðsynlegt að auka möguleika á að koma í veg fyrir brottkast. Á móti kom þó fram að sókn í keilu- og löngustofnana við strendur landsins sé ekki eins og best verður á kosið. Þá var bent á að b-liður 7. gr. frumvarpsins gerði ráð fyrir að tiltölulega hátt hlutfall heildarafla tegundanna væri heimilað sem meðafli utan aflamarks. Þá kom fram að bein sókn virðist vera í tegundirnar og ákvörðun um sókn í stofnana virðist hafa verið nokkuð umfram veiðiráðgjöf undanfarin ár. Að auki kom fram að samkvæmt fiskveiðisamningum við Norðmenn og Færeyinga væru Íslendingar skuldbundnir til að heimila nokkrar veiðar erlendra aðila úr stofnunum utan aflamarks.

Í ljósi alls framangreinds telur 1. minni hluti að ákvæði b-liðar 7. gr. frumvarpsins kunni að hafa í för með sér hættu á aukinni sókn í stofnana. Af þeim sökum gerir 1. minni hluti þá tillögu að liðurinn verði felldur brott úr frumvarpsgreininni.

Magn til strandveiða og byggðaaðgerða. 1. minni hluti ákvað að leggja til breytingu á magntölum c-liðar 7. gr. frumvarpsins. Þá leggur hann til að magntölur í ýsu verði felldar brott úr ákvæðinu. Gerir 1. minni hluti tillögur til breytingar því til samræmis.

Breyting í átt til skýrleika. Þá leggur 1. minni hluti til að 3. mgr. c-liðar 7. gr. frumvarpsins verði breytt í því skyni að taka af allan vafa um að viðbót til strandveiða og byggðaaðgerða skal dragast frá aukningu aflamarks samkvæmt frumvarpinu og er orðalag hennar skýrt með hliðsjón af öðrum breytingum sem 1. minni hluti leggur til að gerðar verði á frumvarpinu. Virðist orðalag málsgreinarinnar hafa valdið nokkrum misskilningi meðal umsagnaraðila.

Úttekt á áhrifum samfélagslegra potta. Á fundum nefndarinnar höfðu gestir ýmsar skoðanir á því hvaða áhrif sérstakar úthlutanir til eflingar samfélaga hefðu í raun og veru. Í því ljósi leggur 1. minni hluti sérstaka áherslu á að hann telur við hæfi að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hlutist til um gerð úttektar á raunverulegum áhrifum slíkra markmiða og þátta fiskveiðistjórnarlaga. Telur 1. minni hluti eðlilegt að ráðherra leggi fram tillögu um framtíðarfyrirkomulag samfélagspotta í framhaldi af niðurstöðum slíkrar úttektar. Væri æskilegt að slíkri vinnu væri lokið skömmu eftir upphaf 140. löggjafarþings.

Auk þess sem að framan greinir gerir 1. minni hluti tillögu að smávægilegum málfars- og orðalagsbreytingum í nafni skýrleika og lagasamræmis.

Fyrsti minni hluti bendir á að í nefndaráliti á þingskjali 1692 kom fram að meiri hlutinn teldi að umsagnir og ummæli umsagnaraðila um málið hafi almennt verið nokkuð neikvæðar og óvægnar. (Gripið fram í: Nú?) Vill 1. minni hluti taka fram að slíkt átti þó ekki við um umsagnir allra aðila, t.d. var umsögn Landssambands smábátaeigenda í mörgum atriðum mjög jákvæð.

Fyrsti minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Atli Gíslason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir þetta nefndarálit rita Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, og hv. þingmenn Ólína Þorvarðardóttir, varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, með fyrirvara. Helgi Hjörvar, með fyrirvara. Róbert Marshall, með fyrirvara.

Í framhaldi af þessu tel ég rétt, og er samkomulag um það, að málið fari til nefndar milli 2. og 3. umr. Það er eðlilegt þar sem um er að ræða ráðstöfun til loka þessa fiskveiðiárs og þess næsta að setja ákvæði um að ráðstafanir samkvæmt 2. gr., sem varða fiskveiðiárin 2012/2013 og 2013/2014, sæti endurskoðun á næsta ári eða samhliða vinnslu við frumvarp um stjórn fiskveiða, mál 827.