139. löggjafarþing — 150. fundur,  10. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:01]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann í framhaldi af því sem hún ræddi hér í andsvari á undan um 2. gr. sem hún segir að hafi verið mjög umdeild. Nú virðist sem LÍÚ hafi verið fengið til að ganga frá útfærslunni á henni. En mig langar að spyrja að öðru sem mér finnst skipta meira máli þegar við erum að breyta lögum um stjórn fiskveiða. Það kemur fram í áliti sem ég held á hérna, sem er umsögn Helga Áss Grétarssonar um þetta frumvarp, að það sé mjög aðfinnsluvert, með leyfi forseta, „að ófullnægjandi greining á áhrifum umræddrar breytingartillögu er að finna í undirbúningsgögnum frumvarpsins“. Þessa tillögu er ekki að finna. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort þau hafi í ljósi þess hversu umdeilt þetta er, eins og hún sagði hér, lagt í að finna út einhvers konar greiningu áður en farið var af stað með ákvæðið.