139. löggjafarþing — 150. fundur,  10. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:05]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það þarf svo sem ekki að hafa mörg orð um að það frumvarp sem við ræðum hér er afleitt og líklega eitt það versta sem hefur ratað inn fyrir þröskulda þessarar stofnunar í langan tíma. Það segir auðvitað sína sögu að hv. formaður sjávarútvegsnefndar er sá eini sem treystir sér til að undirrita þetta nefndarálit. Aðrir úr ríkisstjórnarmeirihlutanum gera það með fyrirvara þannig að hv. þingmaður er eins og eyland í málinu. Hún stendur ein og stjórnarliðarnir (Gripið fram í.) treysta sér ekki einu sinni til að styrkja hana.

Það er rangt hjá hv. þingmanni að halda því fram að umsagnir Landssambands smábátaeigenda séu eitthvað jákvæðar. Lestu umsögnina, hv. þingmaður, (Gripið fram í.) um byggðakvótann. (Gripið fram í.) Falleinkunn, algjör. Og hvað segir Helgi Áss Grétarsson, sérfræðingur í lögum, um þetta mál?

„Það er mitt mat að tiltekin atriði í 1., 2., 5. og 7. gr. frumvarpsins kunna ein og sér, eða metin í heild, að brjóta í bága við grundvallarreglur stjórnarskrárinnar um eignarrétt, atvinnufrelsi, (Forseti hringir.) jafnræði og meðalhóf.“

Hvað hefur hv. þingmaður gert í meðförum þessa máls til að girða fyrir hugsanleg stjórnarskrárbrot?