139. löggjafarþing — 150. fundur,  10. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:47]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi fá að inna hv. þingmann aðeins nánar eftir því hvernig beri að skilja að ákvæðið rími við nýlegar samþykktir flokksþings Framsóknarflokksins, kannski ekki síst vegna þess að hér er um að ræða aðalefnisumræðu málsins, 2. umr. Við hana er verkefni okkar að lýsa sjónarmiðum okkar og afstöðu með það að markmiði að geta hugsanlega komið til móts hvert við annað í salnum og þróað enn frekari breytingar á málum svo um þau megi takast sem mest sátt. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort þessi samsvörun við samþykktir Framsóknarflokksins muni að minnsta kosti ekki þýða að hv. þingmaður og að líkindum flokksmenn hans munu ekki leggjast gegn 2. gr. þegar afstaða er tekin til einstakra efnisgreina. Falli hún úr málinu og það verði samt að lögum þá hefðu þeir með því atkvæði í raun og veru lagst gegn því pinsippi að uppsjávarhafarnir taki þátt í þessum verkefnum.