139. löggjafarþing — 150. fundur,  10. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:49]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta sjútv.- og landbn. (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt, ef við fellum einungis út 2. gr. mun sá ójöfnuður sem verið hefur viðhaldast og jafnvel aukast í náinni framtíð. Hluti af tillögum okkar framsóknarmanna hefur m.a. verið sá að þeir sem hafa ekkert lagt til hingað til í pottana muni leggja til á bilinu 0–3% og síðan ef vel gengur 3–5%. Þetta rímar því við það. Ég held hins vegar að 5,3% í einu stökki hafi verið of bratt farið því menn höfðu ekki hugmynd um hvernig það mundi fúnkera.

Jafnframt höfum við talið að menn ættu síðan að stefna að því að komast kannski í 10% á ákveðnu tímabili. Staðreyndin er sú að við erum komin þangað með þorskinn og miklu lengra. Ef við samþykkjum í 7. gr. að setja 4.500 tonn á næsta ári þá erum við komin langt þar fram yfir. Við erum komin með 23 þús. tonn af þorski af þessum 177, sem væntanlega verður úthlutun hæstv. sjávarútvegsráðherra til næsta árs. Þá erum við komin í ójöfnuð og þá er miklu flóknara og erfiðara að jafna kerfið þegar búið er að taka svona stóran hlut út úr því. Það verður að horfa á allar tillögurnar, bæði hugmyndafræði okkar og þær tillögur sem við leggjum fram, heildstætt. Þess vegna er eðlilegast að fella frumvarpið í heild sinni í burt vegna þess að þetta hangir vissulega saman. Ef við fellum út einstaka greinar en höldum áfram að taka út úr kerfinu búum við til vaxandi ójöfnuð og það getum við ekki heldur sætt okkur við.