139. löggjafarþing — 150. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[00:29]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég velti því fyrir mér þegar ég hlustaði á ræðu hv. þingmanns og einnig í andsvörunum að hv. þingmaður talaði um „vá“ þegar afli færi úr byggðarlagi, þá væri nauðsynlegt að hafa byggðakvóta til að bregðast við slíkri vá. Ég ólst upp við að þegar maður talar um vá séu það náttúruhamfarir eða eitthvað slíkt en ekki kerfislægar aðgerðir, atburðir eða gjörningar sem hafa áhrif á það að byggðalögin liggja flöt og vanmáttug frammi fyrir því sem gerist. Byggðirnar á Vestfjörðum hafa, eins og hv. þingmaður þekkir vel, ekki lent í náttúrulegri vá eða náttúruhamförum þegar þær hafa misst aflaheimildir úr byggðarlögum sínum heldur er það afleiðing af því kerfi sem mér fannst hv. þingmaður samt lofa og prísa.

Ég spyr því hv. þingmann aftur: Er hann ekki sammála mér í því að það eigi að byggðatengja mun fastar ákveðinn grunn í veiðiréttindum og þá um leið herða (Forseti hringir.) löndunar- og vinnsluskyldu á svæðunum? Þetta eru líka (Forseti hringir.) atvinnuréttindi fólksins sem býr þarna, ekki bara þeirra sem gera út.