139. löggjafarþing — 150. fundur,  11. júní 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[00:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er almennt þeirrar skoðunar að það sé ekki hlutverk okkar stjórnmálamanna að hafa á því skoðanir í hverju lífeyrissjóðir fjárfesta. Ég held að það hafi verið farsælt að setja þeim mjög skýrt markmið um að hámarka arðsemi eigna sinna og að það muni fljótt leiða til ófarnaðar ef við í stjórnmálunum ætlum að senda mikil skilaboð til lífeyrissjóðanna um það í hvaða greinum þeir eigi að fjárfesta.

Það hefur verið vinsælt að hvetja til þess að lífeyrissjóðirnir fjárfesti í íslenskum orkuiðnaði af því að það er líka vinsælt að tala um þann iðnað. Ég geld að vissu leyti varhuga við því, við verðum að gæta þess að menn meti einfaldlega fjárfestingarnar á grundvelli arðsemi þeirra en ekki ímyndar, pólitísks hjartalags okkar eða áhugamála um annað. Ef við förum að láta það hafa áhrif á fjárfestingarstefnu sjóðanna endum við fyrr en varir í loðdýraeldi eða fiskeldi með ævisparnað fólks og það kann ekki góðri lukku að stýra.

Ég held hins vegar að þetta mál minni okkur á það mikla óréttlæti sem er í lífeyrisskipan landsmanna vegna þess að sú skattlagning sem hér var gert ráð fyrir og í raun greiðsluþátttaka lífeyrissjóðanna í aðgerðunum fyrir heimilin mun hafa áhrif á réttindi fólks sem er í almenna lífeyrissjóðakerfinu, þ.e. þess fólks sem ekki er svo heppið að vinna hjá hinu opinbera. Við sem erum svo heppin að vinna hjá hinu opinbera mundum ekki bera af þessu kostnað. Fyrir fólk á almennum vinnumarkaði er algerlega óþolandi að sú skipan sé að allar aðgerðir (Forseti hringir.) séu til þess fallnar að skerða réttindi þess en aðrir landsmenn beri engan skaða af verknaðinum.