139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[10:01]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki að tala niður til neins úr þessum ræðustól, hv. þingmaður, hvorki pólitískra andstæðinga né neinna annarra í samfélaginu. Ástæðan fyrir því að ég kallaði þetta frumvarp samfylkingarfrumvarp er einfaldlega sú að hv. þm. Helgi Hjörvar gerði það hér í ræðustól. Ef hv. varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar vill ekki kannast við að þetta sé samfylkingarfrumvarp, hafi marga fyrirvara við það og hafi verið ósátt við það kemur það mér á óvart.

Þú talar um að ég hafi sagt að sátt væri um veiðigjald og annað. Það þurfa allir að hlusta, hv. þingmaður. Ég sagði að sátt væri um gjald á auðlindir landsins. Ég talaði um að að fólk skildi að sátt væri um skattlagningu á auðlindir landsins. Það er sátt um rammana, hv. þingmaður, en útfærsluna á að vinna í sameiningu. Ég ætla ekki að standa hér í ræðustól og segja hvernig útfærslan á að vera. Hana á að vinna í sátt við greinina, eins mikilli sátt og hægt er. Það verða aldrei allir ánægðir. Ég held að við séum löngu búin að átta okkur á því. Þetta á að vinnast í sátt við greinina, en ekki ákvarðast í bakherbergjum eða í ræðustól á Alþingi.

Mér finnst áhugavert í máli þingmanns að hún gerði stóra og mikla fyrirvara við stóra málið, eins og hún sagði í átta atriðum. Var málið tilbúið til framlagningar að mati hv. þingmanns?