139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[10:03]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er vön að svara beint þegar ég er spurð. Var frumvarpið tilbúið til framlagningar? Það var alveg á mörkunum, en það slapp.

Þingmaðurinn segir og bendir á að það sé sátt um rammana í fiskveiðistjórnarkerfinu, útfærslan eigi hins vegar að vinnast í sátt. Áttar þingmaðurinn sig ekki á allri þeirri áreynslu sem átt hefur sér stað og allri viðleitninni til að ná sátt í þessu máli eða vill hún ekki kannast við það að í tvö heil ár hefur staðið yfir samráðs- og sáttaviðleitni við hagsmunaaðila í atvinnugreininni?

Ég er algjörlega sammála þingmanninum um að auðvitað þarf greinin að búa við ákveðið öryggi og fyrirsjáanleika. Það hljóta allir skynsamir menn að sjá. Í tvö ár hefur þetta samráð átt sér stað en gleymum því ekki að útvegsmenn sjálfir, heildarsamtökin, Landssamband íslenskra útvegsmanna, hlupu frá því sáttaborði og létu ekki sjá sig þar í átta eða níu mánuði. Maður hrópar ekki og öskrar eftir sáttum, maður rekur ekki fólk til sátta. Maður getur bara boðið upp á þær. Síðan verður mótaðilinn að meta hvernig og hvort hann vill taka í þá hönd sem rétt er fram. Við skulum halda þessu til haga.

Hins vegar tek ég algjörlega undir að svona mál eiga ekki að ákvarðast í einhverjum hrossakaupum með einhverjum „dílum“ sem skrifaðir eru aftan á servíettur þegar menn sitja á hljóðskrafi. Ákvörðunin hlýtur engu að síður að vera Alþingis Íslendinga, ekki hagsmunaaðilanna. Það er ekki okkar að ganga erinda sérhagsmuna, okkar hlutverk er að vega og meta þá hagsmuni sem uppi eru. (Forseti hringir.) Það hlýtur að vera okkar hlutverk að gæta heildarhagsmunanna.