139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[10:05]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu pínir maður engan til sátta. Ég tek heils hugar undir það með hv. þingmanni. Mig langar hins vegar að velta öðru upp: Voru einhverjir sem ekki vildu þá halda áfram vinnunni þegar sáttanefndin skilaði af sér? Er það ástæðan fyrir því að það var tekið átta mánaða hlé?

Mig langar að grípa niður í greinargerð Sjómannasambands Íslands um litla frumvarpið, með leyfi forseta:

„Eins og að framan er rakið fær frumvarpið mjög neikvæða umsögn hjá Sjómannasambandi Íslands og er það ekki samið í sátt eða samráði við sambandið. Því er mælst til þess að frumvarpið verði ekki að lögum.“

Sjómannasambandið hafði fullan hug á því allan tímann að fá að koma einhvern veginn að málinu, en að sjálfsögðu er ákvörðunin Alþingis Íslendinga. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það. Hv. þingmaður hlustaði greinilega ekki á fyrri ræðu mína um þessi mál, ég komst reyndar ekki að til að tala í stóra málinu, en í litla málinu talaði ég um og hrósaði hæstv. ríkisstjórn fyrir að hafa komið á sáttanefnd í þessu starfi. Ég gladdist mjög yfir því af því að mér er mjög mikið í mun að hér sé sú sátt sem þó getur náðst. Við vitum að aldrei verða allir glaðir og allir brosandi, það verður ekki þannig, en það þarf að ríkja sátt. Það er ekki neitt hjóm, það er ekki eitthvað sem ég segi bara hér. Ég er sjómannskona, ég finn titringinn á eigin skinni og hvað þetta er erfitt. Það er ekki gott að búa við þetta. Við þurfum á þessari atvinnugrein að halda og við þurfum á henni að halda í standi.