139. löggjafarþing — 151. fundur,  11. júní 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[10:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spurði af hverju ekki mætti bíða með frumvarpið til haustsins. Ég tel rétt að gerðar séu þær breytingar sem eru boðaðar á þessu vori. Það er beðið eftir því víða um land að hægt sé að fá aflaheimildir bæði á þessu ári og næsta ári í gegnum strand- og byggðakvóta vegna þess að afleiðingar þess kvótakerfis sem við búum við hafa verið á þá leið að víða er mjög erfitt í sjávarbyggðum að skapa vinnu í kringum sjávarútveg. Aflaheimildir hafa þjappast saman og við erum að reyna að bregðast við því af því að við vitum að þörfin er til staðar. En vissulega eru stóru breytingarnar í stóra kerfinu, þær verða ræddar áfram. Ég skil það þannig að hv. þingmenn í stjórnarandstöðunni reyni eðlilega að berjast fyrir afkvæmi sínu sem er það kerfi sem núna er, og vilji ekki sjá neinar breytingar á því. Það er bara staðreynd.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Hvaða breytingar vill hún sjá á því kerfi sem er núna við lýði? Vilja menn yfir höfuð sjá einhverjar breytingar eða telja þeir kerfið vera það gott að ekkert megi lagfæra þar?

Flokkar hafa mismunandi stefnu. Núverandi stjórnarflokkar hafa á stefnuskrá sinni þá stefnu að það megi gera breytingar á því kerfi sem er við lýði. Við erum bara að framfylgja þeirri stefnu og erum trú okkar sannfæringu og stefnu í þeim málum. Við munum ekki láta reka okkur til baka með einhverjum hræðsluáróðri í þeim efnum, ekki Sjálfstæðisflokk, hagsmunaaðila eða neina aðra því að við erum kosin til að breyta þessu kerfi til góðs.